„Spilling notuð til að byggja valdablokkir“

Þingmaður Pírata spurði dómsmálaráðherra út í nýja skýrslu GRECO á þingi í dag. Hann sagði meðal annars að spilling væri falinn skattur. Hún gerði okkur fátækari, græfi undan réttarríkinu og gerði okkur óörugg.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pirata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pirata.
Auglýsing

„Spilling er rándýr. Spilling hyglar fáum á kostnað allra annarra. Spilling er falinn skattur sem kostar meira en virðisaukaskattur. En á meðan virðisaukaskattur er nýttur til að byggja upp innviði landsins þá er spilling notuð til að byggja valdablokkir.“

Þetta sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun en hann spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra út í nýútkomna skýrslu GRECO, samtaka gegn spillingu.

Kjarninn fjallaði um skýsluna í vikunni en í henni er lagt mat á það hvernig íslensk stjórnvöld hafa til þessa brugðist við þeim 18 tillögum að úrbótum sem GRECO setti fram í skýrslu sinni um Ísland árið 2018. Búið er að koma til móts við fjórar þeirra með fullnægjandi hætti, að mati samtakanna. Sjö tillögur til viðbótar eru sagðar hafa verið innleiddar að hluta, en ekki er búið að innleiða breytingar til þess að mæta sjö tillögum sem lúta flestar að löggæslumálum.

Auglýsing

Jón Þór hélt uppi blaði í pontu þar sem hann var búinn að strika yfir tillögur GRECO með grænum, gulum og rauðum lit. „Grænt er búið. Gult er farið af stað. Rautt er ekki byrjað,“ sagði hann. 


Jón Þór Ólafsson Mynd: Skjáskot/Alþingi

Benti þingmaðurinn á að dómsmálaráðherra hefði fengið slíkan lista af spillingavörnum fyrir tveimur árum. „Hennar listi sneri að löggæslumálum. Og í fréttatilkynningu GRECO hvað löggæslu varðar segir: „Ísland verður að takmarka pólitíska spillingu, pólitísk afskipti.“ Og þetta er listi dómsmálaráðherra: Rautt er ekki farið af stað. Gult er rétt hafið.“

Jón Þór sagði að spilling væri mjög skiljanleg vegna þess að valdafólk gæti notað almannavaldið til að byggja sínar valdablokkir. „Þannig virkar það. En það er á kostnað allra annarra. Spilling er því mjög óæskileg. Hún er falinn skattur. Hún gerir okkur fátækari. Hún grefur undan réttarríkinu. Hún gerir okkur óöruggari. Hún verðlaunar hlýðni í stað hæfileika. Hún gerir okkur lélegri. Það kostar ráðherra ekkert að nota almannavaldið til að byggja eigin valdablokkir fyrr en það kostar traust kjósenda. Ég treysti því ekki að ráðherra vilji vinna að takmörkun spillingar innan löggæslunnar með svona rauðan lista.“

Spurði hann því ráðherra hvers vegna hennar listi væri svona rauður.

„Vinnum hörðum höndum að því að skoða hvað það er í kerfinu okkar sem við getum gert betur“

Áslaug Arna svaraði og sagði að þingmaðurinn gæti rétt fram „einhverja lista sem hann hefur litað sérstaklega en það væri nær að vísa í orð sérfræðings GRECO og einn höfunda þessarar skýrslu“. Vísaði hún í höfund skýrslunnar en hann segir:

„Það má segja að þetta sé allt í vinnslu. Það er ekki búið að innleiða tillögurnar en við tökum til greina að dómsmálaráðherra hóf nýverið mjög yfirgripsmikla endurskipulagningu á lögreglunni og öðrum embættum löggæslu. Það er einnig í gangi endurskoðun. Mér skilst að okkar tillögur sem miða að því að tryggja að engin pólitísk afskipti séu höfð af löggæslu verði innleiddar í gegnum þessi tvö ferli.“

Dómsmálaráðherra benti á að höfundur skýrslunnar segðist vera vongóður varðandi næstu skýrslu, enda væri þetta stöðutaka. „Við höfum fleiri mánuði til að klára eins og lagt var upp með í upphafi og ríki hafa til að klára eftirfylgni þessarar skýrslu. Hann bindur miklar vonir við og telur mjög líklegt að þetta verði komið að 18 mánuðum liðnum og það verði búið að innleiða þessar athugasemdir. Hann segist líka ánægður að sjá þetta ferli og hann bætir auðvitað við að það sé ekki hægt að fara í beinan samanburð við önnur lönd,“ sagði Áslaug Arna.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Mynd: Bára Huld Beck

Spyrði hún hvað búið væri að gera og hvað væri verið að benda á í þessum athugasemdum sem þau væru að reyna að koma til móts við. „Við vinnum hörðum höndum að því að skoða hvað það er í kerfinu okkar sem við getum gert betur til að koma til móts við þær athugasemdir sem þarna koma fram. Það er ekki síst innra samstarf og að lögreglan komi fram sem ein heild í meira mæli en verið hefur og ég veit ekki betur en ég hafi komið á fót lögregluráði.

Við erum að lögfesta það með frumvarpi til laga sem var að klárast í samráðsgátt og er að fara fyrir ríkisstjórn og fyrir þingið fyrir áramót, um að lögfesta lögregluráð sem verði samráðs- og samhæfingarvettvangur allrar lögreglu í landinu með héraðssaksóknara og undir forystu ríkislögreglustjóra. Síðan er að treysta forystuhlutverk ríkislögreglustjóra sem einmitt er bent á að þurfi að gera í athugasemdum GRECO,“ sagði ráðherrann.

Verður vinnan kláruð fyrir kosningar?

Jón Þór sagðist í framhaldinu vonast til þess að ríkislögreglustjóri brygðist við. „Ég vil geta treyst dómsmálaráðherra í þessu máli, forseti, ég vil að þetta sé lagað. Það er dýrt og gerir okkur fátækari, gerir okkur lélegri og gerir okkur óöruggari að hafa spillingu. Þegar okkur er bent á svona hluti og maður sér hvernig listinn er — og þetta er ekkert samanburður milli landa, þetta er listi forsætisráðherra, sem er með tæpan einn þriðja kláraðan af sínum verkefnum, einn þriðja farinn af stað og eitt verkefni ekki farið af stað, og svo listi dómsmálaráðherra og það eru 18 mánuðir fram yfir næstu kosningar.“

Spurði hann hvort dómsmálaráðherra teldi sig getað klárað þetta fyrir næstu kosningar. „Ef það gerist þá treysti ég dómsmálaráðherra. Telur dómsmálaráðherra að hún geti flýtt vinnunni þannig að hún sé kláruð fyrir næstu kosningar?“ spurði hann.

Margt klárað á næstu mánuðum

Áslaug Arna svaraði í annað sinn og sagði að margt í þessu teldi hún að yrði uppfyllt með nýjum lögum en lagt yrði fram frumvarp um það fyrir áramót.

„Í lögreglulögunum, í því sem við erum að breyta, er ekki bara endurskoðun á skipulagi lögreglu og verksviði ríkislögreglustjóra heldur líka eftirlit með störfum lögreglu, rannsóknir þegar upp kemur grunur um refsiverða háttsemi lögreglu í starfi. Og ég er búin að ítreka það með breytingum sem krefjast ekki lagabreytingar, og í samtölum mínum við lögregluráð og alla lögreglustjóra og leggja ríka áherslu á að störf innan lögreglunnar séu auglýst. Er unnið að því innan lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar að uppfylla þau tilmæli sem beinast sérstaklega að þeim og við höfum rekið á eftir að verði lokið.“

Því telur hún að margt verði klárað á næstu mánuðum er lýtur að GRECO. „Það eru kannski einhverjar athugasemdir þarna sem krefjast meiri pólitískrar umræðu og það er mikilvægt að komi fram í umræðu um lögreglulögin þegar frumvarpið kemur fyrir þingið. En ég held að við höfum stigið mörg skref til að svara þessu og það er ekki rétt að bera þessi tvö ráðuneyti saman eins og háttvirtur þingmaður gerði.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Kaldalóns.
Kaldalón ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands árið 2022
Kaldalón hefur selt fasteignaþróunarverkefni í Vogabyggð og keypt tekjuberandi eignir í staðinn. Arion banki ætlar að sölutryggja fimm milljarða króna í nýtt hlutafé í tengslum við skráningu Kaldalóns á markað.
Kjarninn 17. maí 2021
Tækifæri í rafmyntaiðnaði til staðar meðan rafmyntir halda velli að mati ráðherra
Líklega mun hið opinbera nýta sér bálkakeðjutækni þegar fram líða stundir samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um rafmyntir. Ekki er þó enn útlit fyrir að rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun í bráð.
Kjarninn 17. maí 2021
Viðar Hjartarson
Glæpur og refsing – Hugleiðingar vegna nýfallins dóms
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Atli Gunnarsson
Er nýsköpun ekki lengur töff?
Kjarninn 17. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent