Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að pistlahöfundur „útvarps allra landsmanna“ hafi kosið „að afflytja málið og lýsa pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir“ þegar viðkomandi fjallaði um úttekt GRECO á aðgerðum Íslands gegn spillingu. Þetta kemur fram í grein eftir Áslaugu Örnu í Morgunblaðinu í dag. Pistlahöfundurinn, sem ráðherrann kallar líka fréttamann í greininni, er Sigrún Davíðsdóttir.
Ástæðan er pistill sem birtist á vef RÚV í byrjun viku undir fyrirsögninni: „GRECO, tvö ráðuneyti, tvær sögur“. Þar fjallaði Sigrún um hvernig tvö ráðuneyti, forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið, hefðu greint með mismunandi hætti frá niðurstöðu úttektar GRECO, en líkt og Kjarninn greindi frá á mánudag fólst í henni að GRECO telji að Ísland hafi komið til móts við fjórar tillögur af 18 sem settar voru fram í skýrslu um Ísland með fullnægjandi hætti. Sjö tillögur til viðbótar eru sagðar hafa verið innleiddar að hluta, en ekki er búið að innleiða breytingar til þess að mæta sjö tillögum sem lúta flestar að löggæslumálum.
Í umfjöllun Sigrúnar á veg RÚV er bent á að í tillkynningu frá forsætisráðuneytinu segi: „Samkvæmt eftirfylgniskýrslu GRECO hefur Ísland nú innleitt fjórar tillögur sem varða æðstu handhafa framkvæmdarvalds. Fjórar til viðbótar eru innleiddar að hluta að mati samtakanna en ein tillaga telst ekki innleidd.“ Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu sagði hins vegar: „Af 18 tilmælum GRECO hafa níu verið uppfyllt, þrjú að hluta og sex á eftir að uppfylla,“ og bent á að þar sé því sleppt að nefna að dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki uppfyllt nein tilmæli sem sett voru fram í skýrslunni 2018. Sigrún skrifaði svo að báðar tilkynningarnar væru kórréttar, en að „gagnsæi getur sannarlega tekið á sig margar myndir.“
„Ísland verður að takmarka pólitískt afskipti“
Í fréttatilkynningu frá GRECO sem send var út í byrjun viku sagði að þrátt fyrir að samtökin kynnu að meta heildræna nálgun sem íslensk stjórnvöld hafi tekið gagnvart því að byggja upp varnir gegn hagsmunaárekstrum á æðstu stöðum í stjórnsýslunni, vanti enn upp á nokkra hluti.
Hvað löggæslu varðar sagði einfaldlega: „Ísland verður að takmarka pólitísk afskipti,“ í fréttatilkynningu GRECO. Því var bætt við að kynna þyrfti til sögunnar gagnsæjar og sanngjarnar ráðningaraðferðir, auglýsa lausar stöður, setja upp kerfi um framgang í starfi og einnig viðmið um hvenær samningar skyldu ekki endurnýjaðir.
GRECO sagðist kunna að meta aðgerðir sem gripið hafi verið til innan lögreglu varðandi reglulega þjálfun og fræðslu lögregluliðsins varðandi mál tengd heilindum, en harmaði að ekki væri búið að uppfæra siða- og starfsreglur lögreglu og Landhelgisgæslunnar.
Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um úttekt GRECO hér.