Ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu á blaðamannafundi í Hörpu í dag að tekin hefði verið ákvörðun um að hækka grunnatvinnuleysisbætur næsta árs upp í 307.403 krónur, með sérstöku viðbótarálagi ofan á grunnatvinnuleysibætur.
Hækkaðar greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda verða einnig framlengdar út næsta ár og desemberuppbót atvinnuleitenda núna um næstu mánaðarmót verður 86 þúsund krónur.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gert til þess að koma til móts við þann fjölda fólks sem hefur orðið fyrir því áfalli að missa vinnuna vegna áhrifa heimsfaraldurins á efnahagslífið.
Heildarkostnaður ríkissjóðs við þessar þrjár aðgerðir er metinn á 3,2 milljarða króna, samkvæmt upplýsingabæklingi um aðgerðirnar sem ríkisstjórnin hefur birt.
„Stóra verkefnið er að tryggja að atvinnuleysi verði ekki langvarandi böl í íslensku samfélagi,“ sagði forsætisráðherra á blaðamannafundinum, sem reyndar var haldinn án allra blaðamanna, vegna sóttvarnaráðstafana.
Ríkisstjórnin kynnti á fundinum fleiri aðgerðir, sem Katrín sagði að ætlað væri að koma til móts við almenning og atvinnulíf í landinu og tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika inn í veturinn.
Viðspyrnustyrkir sem gætu numið allt 20 milljörðum
Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp um viðspyrnustyrki, sem eru hugsaðir fyrir þá rekstraraðila sem verða fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu 1. nóvember 2020 til 31. maí 2021, samanborið við sama mánuð árið 2019.
Tvö viðmið um tekjufall eru notuð til grundvallar útreiknings styrkfjárhæðar:
- 60-80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna.
- 80-100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna.
Fjárhæð viðspyrnustyrks getur verið að hámarki 90 prósent af rekstrarkostnaði, en þó aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á tímabilinu.
Áætlað umfang þessarar aðgerðar er sagt óvíst og mun fara eftir ásókn í styrkinn. Þó segir ríkisstjórnin áætlað að aðgerðin geti ekki kostað meira en 20 milljarða króna.
Hlutabótaleiðin verður framlengd í núverandi mynd fram til 31. maí 2021. Starfsmenn þurfa að vera í 50 prósent starfshlutfalli til að unnt sé að sækja um hlutabætur.
Öryrkjar fá aukaeingreiðslu í desember
Örorku og endurhæfingarlífeyrisþegar sem eiga rétt á lífeyri á þessu ári munu fá 50 þúsund króna skattfrjálsa eingreiðslu í desembermánuði, til viðbótar við desemberuppbót sem þessi hópur fær einnig.
Einnig kynnir ríkisstjórnin viðbótarhækkun til tekjulágra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega frá 1. janúar.
„Dregið verður úr innbyrðis skerðingum í kerfinu sem skilar tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum 7.980 kr. viðbótarhækkun á mánuði umfram þá 3,6% hækkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021. Heildarhækkun bóta almannatrygginga til tekjulægstu lífeyrisþeganna verður því 19.700 kr. eða 6,1% um áramót,“ segir í kynningarbæklingi ríkisstjórnarinnar.
Heildarumfang þessara tveggja aðgerða í þágu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nemur 2,2 milljörðum króna.
Aðgerðir fyrir barnafjölskyldur
Einnig kynnir ríkisstjórnin að skerðingarmörk í barnabótakerfinu verði hækkuð úr 3,9 milljónum króna á ári í 4,2 milljónir króna á ári hjá einstæðum foreldrum og úr 7,8 milljónir í 8,4 milljónir hjá hjónum eða sambúðarfólki.
„Breytingin skilar einstæðum foreldrum með tvö börn og mánaðartekjur á bilinu 350.000 til 580.000 kr. um 30.000 kr. hækkun barnabóta á ári. Fyrir hjón/sambúðarfólk með tvö börn og samanlagðar mánaðartekjur á bilinu 700.000 til 920.000 kr. hækka barnabætur um 60.000 kr. á ári,“ segir ríkisstjórnin um þessa aðgerð, sem metin er á 830 milljónir króna.
Einnig verður stuðningur við tómstundaiðkun barna af tekjulágum heimilum framlengdur inn í árið 2021 og desemberuppbót verður greidd til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Þá verður ráðist í ýmsar aðrar sértækar félagslegar aðferðir fyrir mismunandi hópa í samfélaginu, aldraða, fatlað fólk, innflytjendur og börn.