Félag fréttamanna á RÚV hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem sá niðurskurður sem fréttastofa RÚV stendur frammi fyrir er harðlega gagnrýndur. Þar segir að á sama tíma og neyðarástand ríki í samfélaginu og aukin krafa sé gerð um stöðugar og traustar fréttir þá skýtur skökku við að skorið sé niður á fréttastofunni. „Það gefur auga leið að fækkun um níu stöðugildi rýrir gæði og vinnslu frétta. Þegar dregið er úr getu fjölmiðla til að stunda gagnrýna blaðamennsku er hætta á að aðgengi almennings að nákvæmum og greinargóðum upplýsingum skerðist. Þetta er sérstaklega hættulegt á tímum upplýsingaóreiðu.“
Þremur fréttamönnum á fréttastofu RÚV var sagt upp í síðustu viku og í tölvupósti sem Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri sendi á starfsmenn, og Kjarninn hefur undir höndum, kom fram að stöðugildum yrði fækkað um níu frá næstu áramótum. Það er um fimmtungur fréttamanna á fréttastofu RÚV
Rekinn eftir rúmlega aldarfjórðungs starf
Í yfirlýsingu Félags fréttamanna segir að RÚV sé hluti af almannavarnarkerfinu og sé eina stofnunin þar sem ekki sé veitt meira fé til rekstursins vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, heldur er þvert á móti skorið niður í framlögum til stofnunarinnar. Þá telji félagið það sæta furðu að yfirstjórn RÚV láti þann niðurskurð bitna á fréttastofunni, á sama tíma og störf hennar hafi sjaldan verið jafn mikilvæg í samfélaginu.
Félag fréttamanna segist harma uppsagnir vandaðra fréttamanna, þar á meðal starfsmanns með rúmlega aldarfjórðungs starfsaldur hjá stofnuninni. „Sá hefur átt í viðræðum við yfirstjórn RÚV vegna vangoldinna yfirvinnugreiðslna, sem hann sannarlega hefur átt rétt á. Félagið setur spurningamerki við að starfsmaður sem barist hefur fyrir réttmætum kjörum sínum fái uppsagnarbréf áður en það mál er til lykta leitt.“
Félagið skorar á yfirstjórn RÚV að endurskoða boðaðan niðurskurð á fréttastofunni og á stjórnvöld að sjá til þess að geta RÚV til að sinna almannavarnahlutverki sínu verði ekki skert.
Vantar allt að 600 milljónir
Í umsögn sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sendi inn til fjárlaganefndar um frumvarpið sagði að auglýsingatekjur RÚV verði um 300 milljónum króna lægri á árinu 2020 en áætlað var, beinn aukinn kostnaður fyrirtækisins vegna hlutverks RÚV í COVID-19 faraldrinum er hátt í 80 milljónir króna og gengislækkun og aðrir liðir hafa hækkað fjármagnsliði fyrirtækisins um 90 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða RÚV verður því 470 milljónum krónum verri í ár en stefnt var að.
Staðan á næsta ári, 2021, verður mun alvarlegri sögn Stefáns. Gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi að framlög til RÚV úr ríkissjóði verði lækkuð um 310 milljónir króna milli ára og verði rúmlega 4,5 milljarðar króna. Þau voru rúmlega 4,8 milljarðar króna á yfirstandandi ári.
Heildarfjárheimild til fjölmiðla, sem fjármögnuð er með að mestu með innheimtu útvarpsgjalds, er áætluð fimm milljarðar króna. Það þýðir að 484 milljónir króna munu fara í eitthvað annað RÚV. Þar af fara 92 milljónir króna í rekstur Fjölmiðlanefndar en það sem út af stendur, 392 milljónir króna, er ætlaður stuðningur við einkarekna fjölmiðla.
Stefán sagði að nettó áhrif af framangreindri lækkun útvarpsgjaldsins yrðu mun meiri en 310 milljónir króna í ljósi þess að RÚV líkt og aðrir standi frammi fyrir verðlagshækkunum á næsta ári í sínum rekstri, þar á meðal vegna nýrra kjarasamninga. Hann taldi að það ætti að meta áhrifin á um 400 milljónir króna vegna þessa. Stefán sagði auk þess að áfram sé gert ráð fyrir verulegum samdrætti í auglýsingatekjum á næsta ári. „Árið 2021 mun því í heild vanta yfir 600 m. kr. í fjármögnun RÚV,“ skrifaði Stefán í umsögn sína.
Fyrirsjáanlegt væri að mæta þyrfti þessari stöðu með breytingum og samdrætti í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV