Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður spari 300 til 700 milljónir á ári hverju og umtalsverð hagræðing verði einnig hjá sveitarfélögum, ef nýtt frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um stafrænt pósthólf verður að veruleika, en drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær.
Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það verði meginregla að stjórnvöld sendi gögn til einstaklinga og lögaðila með stafrænum hætti. Allar stofnanir verða þannig í fyllingu tímans skyldaðar til þess að senda gögn stafrænt og er stefnt að því að allar stofnanir verði byrjaðar að bjóða upp á stafrænar birtingar eigi síðar en 1. janúar 2025.
Ætlan frumvarpsins er meðal annars að eyða öllum vafa um að réttaráhrif slíkra stafrænna birtinga séu þau sömu og gilda um bréfpóst í dag. Tugir stofnana nota þegar pósthólfið á Ísland.is til að senda gögn á fólk og fyrirtæki, án þess að sérstök lög eða reglur um þessa miðlægu þjónustugátt stjórnvalda séu til staðar.
Talið öruggara en bréfpóstur
Í umfjöllun um mat á áhrifum frumvarpsins, sem fylgir drögunum, segir að öryggi sendinga frá hinu opinbera muni aukast til muna, þar sem bréfpóstur sé gjarnan „meðhöndlaður af nokkrum einstaklingum og því ekki fyllilega örugg meðferð gagna,“ en stafrænar sendingar fari beint í pósthólf þess sem upplýsingarnar séu ætlaðar.
Auk áðurnefnds fjárhagslegs hagræðis fyrir ríkið og sveitarsjóði segir einnig að frumvarpið muni hafa jákvæð áhrif á umferð, kolefnislosun og tímanotkun almennings.
„Þrátt fyrir að ætla megi að í upphafi komi til aukins kostnaðar og aukinnar vinnu hjá stofnunum, sértaklega á innleiðingartímabili, þá er ljóst að til lengri tíma verður töluverð hagræðing fyrir samfélagið allt,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Ríkisstjórnin staðfesti í maí árið 2018 þá stefnu sína að stafræn þjónusta eigi að verða meginleið samskipta á milli hins opinbera, almennings og fyrirtækja og er frumvarpið sem fjármálaráðherra hefur nú lagt fram til kynningar liður í þeirri ætlan.
Danska leiðin farin
Í greinargerð segir að horft hafi verið til framkvæmdarinnar á Norðurlöndum við smíði frumvarpsins.
Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð sé framkvæmdin sú að ríkisstofnunum og sveitarfélögum upp að vissu marki sé skylt að bjóða upp á gagnasendingar í stafræn pósthólf, en einstaklingum og fyrirtækjum ekki skylt að hafa slík pósthólf. Reynslan þaðan sýni að notkun þessa úrræðis sé tiltölulega lítið útbreidd í löndunum þremur.
Í Danmörku er reynslan hins vegar önnur, en þar er opinberum aðilum skylt að senda gögn í stafræn pósthólf. Einstaklingum og lögaðilum er einnig skylt að hafa slík pósthólf og ber að kynna sér gögn sem þangað berast og bregðast við þeim, eftir aðstæðum. Íslenska frumvarpið byggir á dönsku leiðinni í þessum efnum.