Áform Sjálfstæðisflokksins um að ljúka endurgreiðslu styrkja, sem hann fékk í lok árs 2006 frá FL Group og Landsbanka Íslands, hafa enn ekki gengið eftir. Þetta kemur fram í svari Þórðar Þórarinssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, við fyrirspurn Kjarnans. Samtals námu styrkirnir 56 milljónum króna.
Í svarinu segir að stjórnmálaflokkar hefðu hlotið háa styrki frá fyrirtækjum árið 2006 en að þeir hefðu verið í samræmi við þágildandi lög. Styrkirnir hefðu verið gagnrýndir í opinberri umræðu og ákvað Sjálfstæðisflokkurinn einn flokka að endurgreiða styrki sem hann hlaut árið 2006.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurgreitt af rekstrarfé sínu. Áform voru uppi um að ljúka endurgreiðslum fyrir árið 2018. Það gekk því miður ekki eftir. Ástæðan fyrir því er m.a. að kosningar hafa verið tíðari en ráð var fyrir gert, en þær eru langsamlega fjárfrekustu útgjaldaliðir stjórnmálaflokka. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að endurgreiðslum ljúki á næstu misserum,“ segir í svari framkvæmdastjórans en svarið er hið sama og fyrir ári þegar Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um það hvort flokkurinn væri búinn að endurgreiða styrkina.
38 milljónir stóðu eftir árið 2013
Styrkirnir voru veittir í lok árs 2006 og námu samtals 56 milljónum króna, eins og áður segir. Vorið 2009 sagði Bjarni Benediktsson, þá nýkjörinn formaður flokksins, að styrkirnir yrðu endurgreiddir.
Á landsfundi flokksins 2013 kom fram í máli Jónmundar Guðmarsson, þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, að flokkurinn hefði þegar endurgreitt um 18 milljónir króna. Samkvæmt því stóðu þá 38 milljónir króna eftir árið 2013.
Sjálfstæðisflokkurinn ákvað einn flokka að endurgreiða háa styrki sem hann fékk fyrir hrun. Samfylkingin fékk einnig styrki upp á rúmar 36 milljónir króna árið 2006 frá Kaupþingi, FL Group, Glitni, Landsbanka Íslands og Baugi. Flokkurinn sagðist hins vegar ekki ætla að greiða styrkina til baka líkt og Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að gera.
Sjálfstæðisflokkurinn fær langhæstu framlögin
Kjarninn greindi frá því í gær að Sjálfstæðisflokkurinn væri sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem fengi langhæstu framlögin frá fyrirtækjum og einstaklingum. Alls fékk flokkurinn 49,5 milljónir króna í slík framlög á síðasta ári en það er meira en fimm flokkar sem sæti eiga á þingi, og Ríkisendurskoðun hefur lokið yfirferð á ársreikningi hjá, fengu samanlagt á árinu 2019.
Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins, hefur alla tíð verið duglegastur við að safna framlögum frá fólki og fyrirtækjum. Árið 2018 námu slík framlög til að mynda 71,4 milljón krónum og ári áður, 2017, voru þau tæplega 60 milljónir króna. Þau lækka því umtalsvert milli ára.
Þá námu styrkir lögaðila og einstaklinga ásamt félagsgjöldum hjá Framsóknarflokki, Samfylkingu, Vinstri grænum, Viðreisn og Miðflokknum samanlagt um 44,7 milljónum króna á síðasta ári. Ríkisendurskoðun hefur enn ekki birt ársreikningi Pírata og Flokks fólksins.
Framlög lögaðila og einstaklinga til allra flokka hafa dregist verulega saman eftir að stjórnmálaflokkarnir ákváðu að hækka framlög til sín úr ríkissjóði um 127 prósent í lok árs 2017. Sú ákvörðun fulltrúa allra flokka á þingi nema Pírata og Flokks fólksins hækkaði framlög úr ríkissjóði vegna ársins 2018 úr 286 í 648 milljónir króna. Í fyrra fengu flokkarnir átta svo 744 milljónir króna og árin 2020 og 2021 verður framlagið um 728 milljónir króna á hvoru ári fyrir sig. Samtals munu þeir átta flokkar sem eiga sæti á þingi því fá rúmlega 2,8 milljarða króna í framlög úr ríkissjóði á kjörtímabilinu. Við þá upphæð bætast framlög frá sveitarfélögum og bein framlög frá Alþingi.
Vert er að hafa í huga að kosningar voru þrjú ár í röð: 2016, 2017 og 2018. Tvívegis var kosið til þings og einu sinni til sveitarstjórna. Á kosningaárum má búast við að framlög frá lögaðilum og einstaklingum séu hærri en ella.