Hlutfall þeirra landsmanna á aldrinum 18-24 ára sem býr í foreldrahúsum hefur stóraukist undanfarið ár, og sérstaklega eftir að COVID-19 faraldurinn skall á snemma á árinu 2020. Í lok árs 2019 var hlutfall þeirra landsmanna á því aldursbili sem bjó í foreldrahúsum 42 prósent. Í síðustu könnun sem Zenter gerði fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, í ágúst síðastliðnum, var það hlutfall hins vegar komið upp í 70 prósent.
Frá þessu er greint í umfjöllun á síðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar segir að um gríðarlega aukningu sé að ræða á skömmum tíma og ljóst sé að heimsfaraldurinn spili þar stórt hlutverk. „Því eru sterkar vísbendingar um að COVID-faraldur sé að koma einna verst niður á unga fólkinu og að það sé fast í foreldrahúsum og sé hvorki að leita inn á leigumarkað né í eigið húsnæði um þessar mundir.“
Stóraukið atvinnuleysi vigtar þungt
Mikill samdráttur í ferðaþjónustu og tengdum þjónustugeirum þar sem margt ungt fólk hefur að jafnaði starfað, hefur leitt til þess að fjöldi þeirra sem eru á aldrinum 18-24 ára sem eru atvinnulausir hefur stóraukist.
Í lok október í fyrra voru 920 einstaklingar á því aldursbili án atvinnu. Í lok október 2020 taldi sá hópur 2.157 og því hefur atvinnulausum ungmennum fjölgað um 1.237 á einu ári, eða um 134 prósent.
Leigjendur ekki verið færri frá því í kringum hrunið
Kannanir sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur látið gera benda til þess að hlutfall landsmanna sem er á leigumarkaði hafi ekki verið lægra frá því í kringum hrunið 2008, en leigjendur voru um 12 prósent landsmanna í lok þess árs. Síðan þá hefur meðaltalið verið í kringum 16 prósent en frá miðju ári 2019 hefur það farið hratt lækkandi úr því að vera 18 prósent í júlí á því ári í að vera 13 prósent ári síðar.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun bendir á að leigjendum hafi tekið að fækka á svipuðum tíma og vextir fóru að lækka og því sé fylgni þar á milli. Samkvæmt nýjustu leigukönnun stofnunarinnar vildu enda níu af hverjum tíu leigjendum heldur búa í eigin húsnæði en leigja.