Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-faraldursins hafi ekki beinst að einstaklingum og heimilum í nægilegum mæli og segir að VR krefjist þess að stjórnvöld og fjármálastofnanir „hlusti og hefji raunverulegar aðgerðir til hjálpar svo hér verði ekki sama niðurbrot og eymd sem fylgdi í kjölfar síðasta hruns.“
Í færslu sem Ragnar birtir á vef VR í dag fer hann yfir þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar til þessa, út frá þeim upplýsingum sem stjórnvald hafa birt um nýtingu úrræðanna hingað til og heildaráætlun um útgjöld.
Hann segir stjórnvöld „stæra sig af því“ að hafa kynnt úrræði sem nemi um 340 milljörðum króna til að tryggja viðspyrnu í kjölfar faraldursins og segir að beinn stuðningur sem farið hafi til til einstaklinga og heimila hingað nemi um 7 milljörðum króna, á meðan að fyrirtæki hafi nýtt úrræði fyrir rúma 80 milljarða króna, ýmist í formi beins stuðnings, ábyrgða eða tilfærslna, miðað við þær tölur sem stjórnvöld hafi birt um nýtingu úrræðanna.
„Beinn stuðningur við einstaklinga og heimili er um 7 milljarðar króna (m.v. birtar tölur um nýtingu úrræðanna). Eins og það sé ekki nógu slæmt að svo litlir fjármunir hafi skilað sér til heimilanna í samanburði við fyrirtækin þá hafa einstaklingar og heimili gengið á eigin sparnað með því að taka út séreignarsparnað sinn svo nemur 21 milljarði króna,“ segir Ragnar Þór og bætir við að séreignasparnaður sem tekinn er út vegna COVID-faraldursins sé staðgreiðsluskyldur og þegar upp verði staðið muni um 7,5 milljarðar skila sér til ríkis og sveitarfélaga í formi skatttekna.
„Miðað við þau gögn sem liggja fyrir virðast stjórnvöld því hafa haft beinar tekjur upp á 600 milljónir króna umfram þær „björgunaraðgerðir” sem hafa runnið til heimilanna í landinu, fram að þessu! Þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið heimilum hafa verið almenn, en ekki sérsniðin eins og alþjóðastofnanir hafa mælst til að séu nýtt. Slík ráðstöfun skattfjár getur vart talist ábyrg og efasemdir eru um að þau hafi verið áhrifarík, í ljósi þess mikla sparnaðar sem heimilin hafa mátt taka út til að bjarga sér sjálf út úr erfiðum aðstæðum,“ skrifar Ragnar Þór, sem tekur reyndar ekki með inn í myndina þau auknu útgjöld sem fallið hafa á ríkissjóð vegna stóraukins atvinnuleysis í landinu.
Er hrunið gleymt og grafið?
Ragnar Þór spyr hvort efnahagshrunið fyrir röskum áratug sé gleymt og grafið og hvort við höfum ekkert lært. „Ef það var eitthvað sem við hefðum átt að læra af því þá var það sá gífurlegi mannlegi harmleikur sem fylgdi í kjölfar þess að allir „björgunarpakkar” miðuðu við atvinnu- og fjármálalífið og heimilin og einstaklingarnir gleymdust,“ skrifar formaður VR.
Hann segir að það ætti að snúa þessu við, læra af reynslunni og setja mesta kraftinn í að hjálpa einstaklingunum og heimilinunum. „Þau eru þjóðin. Stjórnvöld eru til fyrir þjóðina en ekki öfugt,“ skrifar Ragnar Þór í samantekt sinni.
Hann segir mörg úrræði fyrir einstaklinga ekki komin til framkvæmda eða þau hugsuð til lengri tíma, til dæmis framlenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta, ýmis námsúrræði og fjölmörg af þeim félagslegu úrræðum sem hafi verið kynnt.
„Þá hafa önnur úrræði án efa verið nýtt án þess að upplýsingar um það hafi verið birtar. Þetta á hins vegar einnig við um fyrirtækin. Það verður ekki framhjá því litið að skatttekjur af úttekt séreignarsparnaðar einstaklinga vega upp á móti þeim beina stuðningi sem heimilin hafa fengið í þessum faraldri,“ skrifar Ragnar Þór.