Í nýju fjáraukalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er óskað eftir því að ríkið fái heimild til að taka lán upp á allt að 360 milljörðum króna í erlendri mynt á þessu ári. Fyrir var heimildin 140 milljarðar króna og því er um aukningu upp á 220 milljarða króna að ræða.
Í fjárlögum ársins 2020 var heimild fyrir langtímalántöku upp á 40 milljarða króna og til viðbótar var sérstök heimild til erlendrar lántöku upp á 100 milljarða króna. Í fjáraukalagafrumvarpi sem lagt var fram í mars var almenna lánsfjárheimildin hækkuð og í greinargerð sem fylgdi með því kom fram að vegna óvissu um mögulegt umfang aðgerða vegna COVID-19 faraldursins og endanlegrar fjárþarfar ríkisins gæti lánsfjárþörfin aukist verulega þegar líða tæki á árið.
Í greinargerð með nýjasta fjáraukalagafrumvarpinu, sem var lagt fram í gær, segir að nú liggi fyrir endurskoðað mat á lánsfjárþörf ríkissjóðs og ljóst sé að leita þarf aukinna heimilda. „Lánsfjárheimildin er til að mæta langtímalántökum, sem fyrst og fremst eru útgefin ríkisbréf, nettóaukningu á útistandandi víxlum og annarri skammtímafjármögnun, en hluta af útistandandi skammtímafjármögnun kann að vera breytt í lengri tíma fjármögnun fyrir árslok.“
Hagstæðir vextir í boði
Í greinargerðinni segir að sjóðsstaða ríkissjóðs sé góð um þessar mundir. Innlendar innstæður í Seðlabanka séu um 110 milljörðum króna nú í lok nóvember. Því til viðbótar á ríkissjóður um 220 milljarða króna í erlendum innstæðum sem unnt sé að nýta að hluta til að mæta fjárþörf hans og myndi það að óbreyttu draga úr innlendri lántöku. Nýting gjaldeyriseigna að hluta gætu falið í sér að þær viðbótarheimildir sem verið er að óska eftir, að taka erlend lán fyrir allt að 360 milljarða króna innan ársins, yrðu ekki nýttar til fulls.
Heildarskuldir ríkissjóðs verða um 1.251 milljarðar króna í árslok 2020 gangi endurskoðaðar áætlanir eftir og skuldahlutfall hans um 34,6 prósent af vergri landsframleiðslu. Það er kúvending frá því sem stefnt var að í fjárlögum ársins 2020 þegar stefnt var að því að skuldir ríkissjóðs yrðu 820 milljarðar króna um næstu áramót. Því verða skuldir ríkissjóðs um komandi áramót 431 milljarði króna hærri en lagt var upp með á fjárlögum þessa árs.
Í fjárlögum ársins 2020 var ekki gert ráð fyrir erlendri lántöku ríkissjóðs á árinu. Ríkissjóður gaf engu að síður út skuldabréf í maí 2020 að fjárhæð 500 milljónir evra sem samsvaraði um 76 milljörðum króna, en það skuldabréf ber 0,625 prósent fasta vexti og er ein af þremur útistandandi jafn stórum skuldabréfaútgáfum ríkissjóðs í evrum.
Vextir hafa lækkað mikið vegna faraldursins. Í greinargerð með fjáraukalagafrumvarpinu segir að af þeim sökum hækki vaxtagjöld ársins hlutfallslega umtalsvert minna en skuldir. „Áætluð skuldastaða ríkissjóðs í árslok 2020 er um 53 prósent hærri en reiknað var með í fjárlögum á meðan vaxtagjöld og verðbætur eru aðeins um 3,5 prósent hærri.“