Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun af hverju hún væri „að mylja undir þá ríku“ og hvers vegna hún væri að deila peningum almennings til þeirra sem þurfa þá ekki þegar þúsundir væru atvinnulaus og Landspítalinn byggi við aðhaldskröfu. Forsætisráðherra neitaði fyrir það og útlistaði aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hún teldi að hefði einmitt gert hið gagnstæða.
Þórhildur Sunna byrjaði á því í fyrirspurn sinni að vísa í orð forseta ASÍ þar sem hún sagði að verið væri að mylja undir þá sem eiga. „Þar vísaði Drífa Snædal meðal annars í fyrirhugaða hækkun á frítekjumarki fjármagnstekjuskatts sem mun færa fjármagnseigendum 150.000 krónur aukalega í ráðstöfunartekjur á mánuði. Aðgerðin mun fela í sér að tekjuhæsta fólkið mun komast hjá því að borga 770 milljónir króna í samneysluna sem að maður hefði haldið að flokkur hæstvirts forsætisráðherra sem kennir sig við félagshyggju hefði viljað nýta með öðrum hætti,“ sagði þingmaðurinn.
Samtímis stærði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sig af því að ætla að hækka ráðstöfunartekjur atvinnulausra í stórkostlegri atvinnukreppu um 17.000 krónur á mánuði. Þetta gerði ríkisstjórnin loksins eftir viðstöðulausa baráttu verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunnar í fleiri fleiri mánuði eða allt frá upphafi þeirra efnahagsþrenginga sem verða sífellt alvarlegri.
Í frumvarpinu sem þarna er átt við og ríkisstjórnin samþykkti í vikunni að leggja fram á Alþingi er lagt til að frítekjumarkið hækki úr 150.000 krónum á ári í 300.000 krónur – en ekki á mánuði eins og fram kom hjá þingmanninum.
Telur ekki alla í sama báti
„Þetta er samt sama ríkisstjórnin sem þurfti ekki nema einn dag til þess að finna 25 milljarða króna í vasanum sínum til að koma til móts við frekjukast Samtaka atvinnulífsins um daginn. Eins og hendi væri veifað var boðað til blaðamannafundar við ráðherrabústaðinn þar sem hæstvirtur muldi enn frekar undir fyrirtæki og fjármagn í landinu.
Hæstvirtur ráðherra hefur sagt að við séum öll í sama báti í þessum ólgusjó sem nú ríður yfir íslenskt efnahagslíf, en dæmin sanna einfaldlega hið gagnstæða,“ sagði hún.
Spurði Þórhildur Sunna hvers vegna forsætisráðherra væri „að mylja undir þá ríku“ og hvers vegna hún væri – eins og aðalhagfræðingur Kviku banka hefði bent á á dögunum – að deila peningum almennings til þeirra sem þurfa þá ekki þegar þúsundir væru atvinnulaus og Landspítalinn byggi við aðhaldskröfu. „Hvaða sjónarmið liggja þar að baki?“ spurði hún.
Sagði Þórhildi Sunnu ekki fara rétt með
Katrín svaraði og sagði að það væri alltaf hættuspil hjá þingmönnum þegar þeir segðu að dæmin sýndu eitthvað tiltekið en færu svo ekki rétt með.
„Við skulum bara fara yfir dæmin um það sem þessi ríkisstjórn hefur gert til að auka jöfnuð hér á landi og bæta lífskjör. Hér var samþykkt réttlátara skattkerfi, þrepaskipt skattkerfi, sem skilaði skattalækkun til þeirra tekjulægstu. Er það að mylja undir hina ríku? Ég held ekki.
Já, við hækkuðum atvinnuleysisbætur. Með þeim breytingum sem verða um áramótin hafa þær raunar verið hækkaðar um 35 prósent á þessu kjörtímabili, töluvert minna en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur hækkað á þessu sama kjörtímabili sem nú er til umræðu. Háttvirtur þingmaður ætti kannski að velta því fyrir sér og ræða við sína sveitarstjórnarmenn. Já, við höfum lengt fæðingarorlof. Er það að mylja undir hina ríku eða er það til að tryggja betur lífsgæði ungs fólks sem gögn sýna að hefur einmitt setið eftir þegar við skoðum áratug aftur í tímann?“ spurði forsætisráðherrann á móti.
Að vísa í hagfræðing Kviku banka „ber nú hreinlega vott um þekkingarleysi“
Þá benti Katrín á að ríkisstjórnin hefði innleitt hér á landi nýtt kerfi hlutdeildarlána til að styðja við þá sem þurfa að kaupa nýtt húsnæði og hafa átt erfitt með það á undanförnum árum. „Er það að mylja undir þá ríku, háttvirtur þingmaður? Er það dæmi sem sýnir það? Er sú ráðstöfun sem ákveðið hefur verið að ráðast í, að endurskoða kerfi almannatrygginga þannig að fjárhæðir sem renna í bætur til þeirra sem minnst hafa í þeim hópi hækki hlutfallslega meira en hinna?“ spurði hún.
Hún spurði Þórhildi Sunnu jafnframt hver „þessi dæmi“ væru sem þingmaðurinn talaði um.
„Er það að hækka fjármagnstekjuskattinn upp í 22 prósent, en vissulega endurskoða tekjustofn eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála, endilega dæmi um það að mylja undir hina ríku? Háttvirtur þingmaður verður að velta því fyrir sér þegar hún segir að dæmin sanni eitthvað og það að vísa í hagfræðing Kviku banka, sem var í sínu máli að ræða um það fjármagn sem er inni í bönkunum og gefa til kynna að ríkisstjórnin hefði ákveðið að deila út fjármagni, ber nú hreinlega vott um þekkingarleysi,“ sagði hún.
„Ekki mikil hetjudáð að hækka fjármagnstekjuskatt um 2 prósentustig“
Þórhildur Sunna kom aftur í pontu og sagðist hafa vitað að forsætisráðherra myndi nefna þrepaskipta skattkerfið sem lið í jöfnun. Þó vissu þær báðar að þrepaskipta skattkerfið sem ráðherra minntist á nýttist betur þeim tekjuhæstu en þeim tekjulægstu.
„Þeim tekjuhópi, þeim tekjulægstu, hefði einmitt gagnast best að fá sömu meðferð og fjármagnseigendur fá nú, þ.e. hækkun frítekjumarks eða persónuafsláttar. Nú fá fjármagnseigendur 150.000 krónur aukalega í ráðstöfunartekjur á mánuði en atvinnulausir fá 17.000 krónur mánaðarlega aukalega í ráðstöfunartekjur.“ Spurði þingmaðurinn hvar jöfnuðurinn væri í því.
„Síðan vildi ég einfaldlega segja að mér finnst það ekki mikil hetjudáð að hækka fjármagnstekjuskatt um 2 prósentustig, upp í 22 prósent, á meðan fjármagnstekjuskattur í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, á Norðurlöndunum, er á bilinu 30 til 42 prósent.“
Atvinnuleysi mesta langtímabölið sem Ísland gæti átt við að eiga
Katrín svaraði í annað sinn og velti því fyrir sér hvort hún ætti að skilja orð þingmanns þannig að hún væri á móti þrepaskiptu skattkerfi.
„Það mátti skilja það af orðum hennar og mér finnst það áhugavert ef svo er. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við, þar sem jöfnuður er mestur og velsældin mest, eru einmitt þær þjóðir sem hafa þrepaskipt skattkerfi. Mér finnst því áhugavert, þegar háttvirtur þingmaður kemur hér upp og ræðir um hvað ríkisstjórnin hefur gert, að hún hafi þessa afstöðu. Ég bara tek það með mér út úr þessum fyrirspurnatíma,“ sagði hún.
Nefndi Katrín enn fremur að stærsta einstaka aðgerð ríkisstjórnarinnar hefði einmitt snúist um að tryggja að fólk gæti viðhaldið ráðningarsambandi og verið áfram í hlutastörfum.
„Það er best nýtta úrræði ríkisstjórnarinnar þegar við horfum á það sem gert hefur verið. Um 20 milljarðar hafa runnið til þess og það munum við framlengja fram á sumar. Ég veit að vafalaust finnst einhverjum háttvirtur þingmönnum hér inni ekki mikilvægt að tryggja að fólk geti verið áfram í vinnu og finnst það að sigrast á atvinnuleysinu ekki vera stærsta viðfangsefni stjórnvalda á hverjum tíma. En það er mín afstaða að atvinnuleysi sé það mesta langtímaböl sem þetta land geti átt við að eiga og það sé einmitt mikilvægt að vinna á því.“