Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir að endurskoða þurfi lagaumhverfi leigumarkaðarins hér á landi. Miklar breytingar hafi verið gerðar á löggjöf um skammtímaleigu, s.s. Airbnb, en tryggja þurfi öryggi leigjenda sem leigja húsnæði til lengri tíma. Það sé m.a. hægt að gera með því að auka heimildir eftirlitsaðila til að skoða leiguhúsnæði með tilliti til eldvarna og annars aðbúnaðar.
Dagur, sem einnig er stjórnarformaður slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir að átak hafi verið gert í eldvarnaeftirliti í atvinnuhúsnæði þar sem vitað er að fólk býr. Heimildir slökkviliðs til slíks eftirlits og þvingunarúrræða ef úrbætur eru ekki gerðar, eru skýrar í lögum.
„En það sem maður situr svolítið eftir með í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg, þar sem margt svipaði til þeirra aðstæðna sem er að finna í óleyfishúsnæði og búsetu í atvinnuhúsnæði, er að þar sem um íbúðarhúsnæði var að ræða er ábyrgðin samkvæmt lögum og reglugerðum fyrst og fremst eigandans,“ segir Dagur í ítarlegu viðtali við Kjarnann um eldsvoðann og það sem hann afhjúpaði í aðstæðum erlends verkafólks hér á landi. „Löggjafinn nánast ætlast ekki til aðkomu eldvarnaeftirlits og slökkviliðs þegar íbúðarhúsnæði er annars vegar nema þegar sótt er um að gera breytingar á eldra húsnæði.“
Eftirlitsaðilar séu algjörlega háðir samstarfi við eigendur íbúðarhúsa, jafnvel þótt að þar fari fram umfangsmikil leigustarfsemi og að eigandinn búi einhvers staðar allt annars staðar eins og raunin var á Bræðraborgarstíg 1.
Dagur segir að í húsaleigulögum sé nánast gert ráð fyrir því að fólk leigi frá sér eitt herbergi í íbúðinni sinni eða eina hæð í húsinu sínu og að eigandinn búi sjálfur á staðnum. „Það má segja að ekki sé gert ráð fyrir því að einhver stundi þá atvinnustarfsemi að leigja út til mjög margra í langtímaleigu eða að koma hópi fólks fyrir í íbúðarhúsnæði, til dæmis erlendum verkamönnum, án þess að eigandinn búi þar sjálfur.“
Á Bræðraborgarstíg 1 bjó fjöldi erlendra verkamanna sem hver leigði sitt herbergi. Í ítarlegri úttekt Kjarnans á eldsvoðanum kom fram að eldvörnum í húsinu, sem eru á ábyrgð eiganda, var ábótavant.
Leigjendur geti kallað eftir eldvarnaskoðun
Að mati borgarstjóra hljóta sömu sjónarmið að mörgu leyti að eiga við um skammtíma- og langtímagistingu, sérstaklega ef um útleigu á íbúðarhúsnæði er að ræða þar sem eigandinn býr ekki sjálfur. „Mér finnst mjög brýnt, að þegar niðurstaða rannsóknar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á brunanum á Bræðraborgarstíg liggur fyrir, hafi sú stofnun forystu í því að fara yfir þetta regluverk með það að meginmarkmiði að tryggja öryggi leigjenda,“ segir Dagur. „Ég vil að þú eigir að geta treyst því þegar þú tekur herbergi eða íbúð á langtímaleigu að þar sé búið að huga að eldvörnum og öryggi, eða þú eigir að geta með auðveldum hætti kallað eftir eldvarnarskoðun, á kostnað leigusala, þér að kostnaðarlausu.“
Þessi staða, bæði þeirra sem leigja í íbúðarhúsnæði og í óleyfishúsnæði, hefur þróast mjög hratt á undanförnum árum. „Þetta tiltekna mál, bruninn á Bræðraborgarstíg, sýnir að löggjöfin og regluverkið hefur ekki náð að taka utan um þennan veruleika. Athyglin hefur verið á atvinnuhúsnæðinu og óleyfisbúsetu þar en síður á íbúðarhúsnæði og það er eitt af því sem þetta mál verður að vekja alla til umhugsunar um.“
Um sjötíu manns voru skráðir til heimilis að Bræðraborgarstíg 1 er bruninn varð. Þessi ranga lögheimilisskráning flækti m.a. viðbrögð velferðarþjónustunnar við eftirlifendur brunans. Ekki tókst að hafa uppi á öllum sem raunverulega bjuggu í húsinu.
Í framhaldi af fundi sem borgarstjóri boðaði fulltrúa slökkviliðs, byggingafulltrúa, heilbrigðiseftirlits og fleiri á í haust var ákveðið að beina erindum til eigenda húsa í borginni þar sem annað hvort margir voru skráðir til heimilis eða borist hafa margar ábendingar um Í þessum erindum var óskað eftir samvinnu við eigendur, meðal annars um að fá að fara í eftirlitsferðir. „Við viljum láta á samvinnu við eigendur reyna og auðvitað standa vonir okkar til þess að þessir eigendur séu búnir að átta sig á því eldvarnareftirlit getur leiðbeint og bent á mjög mikilvæga hluti. En þetta er líka hluti af ákveðinni gagnaöflun hjá okkur til að eiga í framhaldinu samtal við löggjafann. Ef það kemur nú í ljós í einhverjum tilteknum tilvikum að ekki fæst samvinna, sem er ekki fullreynt á þessari stundu, verður auðvitað sú spurning áleitnari hvað eigi þá til bragðs að taka.“