Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, hefur ákveðið að bjóða sig fram til þess að leiða lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi til kosninga á næsta ári. Ari Trausti Guðmundsson, eini þingmaður VG í kjördæminu, tilkynnti í gær að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér á nýjan leik.
Flokkurinn fékk 11,8 prósent fylgi í kjördæminu í kosningunum árið 2017.
Hólmfríður tilkynnti um framboð sitt á Facebook undir kvöld, en hún hefur hefur verið virk í starfi VG undanfarin ár og er formaður svæðisfélags Vinstri grænna á Suðurnesjum.
Hún segir að það skipti miklu að „íbúi af fjölmennasta og fjölbreyttasta svæði kjördæmisins leiði listann með jafnrétti, jöfnuð, lýðræði, sjálfbærni, fjölmenningu og réttlæti að leiðarljósi.“
„Hér á Suðurnesjum þurfum við að leggja ríka áherslu á að efla heilbrigðisþjónustu við íbúa. Þá þarf einnig að horfa til fjölbreyttari atvinnumöguleika og samfélags þar sem vel er stutt við fjölmenningu og menntun í öllu kjördæminu með umhverfi, mannlíf og verndun náttúrunnar efst í huga,“ segir Hólmfríður í framboðstilkynningu sinni.
Ljóst er að Vinstri græn munu tefla fram nýjum andlitum í oddvitasætum í að minnsta kosti þremur kjördæmum næsta haust, en auk Ara Trausta í Suðurkjördæmi hefur Steingrímur J. Sigfússon, sem leitt hefur lista flokksins í Norðausturkjördæmi undanfarna tvo áratugi, tilkynnt um að hann ætli að hætta á þingi og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem leiddi lista flokksins í Kraganum, sagði sig úr VG fyrr á árinu.