„Ástandið var svo óhuggulegt í fyrstu. Lokaðar kistur, lík í plastpoka, engin kistulagning.“
Þannig lýsir hjúkrunarfræðingur stöðunni á smitsjúkdómadeild Borgarspítalans á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda eftir að HIV-faraldurinn braust út. Lítið var í fyrstu vitað um sjúkdóminn sem HIV-veiran olli. Það var mikil hræðsla og það voru miklir fordómar. Og sjúklingarnir upplifðu skömm.
Hjúkrunarfræðingurinn segir sögu sína í bókinni Berskjaldaður eftir blaðamanninn Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur sem nýverið kom út. Í henni er fjallað um baráttu Einars Þórs Jónssonar fyrir lífi og ást. Einar smitaðist sjálfur af veirunni á níunda áratugnum og horfði á eftir hverjum vini sínum á fætur öðrum deyja úr alnæmi. Hommar voru ekki aðeins að berjast við „pláguna“ eins og HIV-faraldurinn hefur gjarnan verið kallaður, heldur lífshættulega fordóma á heimsvísu. Fordómarnir voru síst minni á Íslandi en annars staðar og segir Einar m.a. frá atvinnumissi félaga sinna sem hann telur hiklaust að rekja megi til þess að þeir voru smitaðir.
Hjúkrunarfræðingurinn, sem er kona, lýsir ástandinu sem skapaðist vegna HIV og fordómanna sem umluktu tilveru samkynhneigðra á níunda áratugnum og í byrjun þess tíunda sem hamförum. Vanþekking og hræðsla hafi einkennt viðbrögð margra. Þegar hún ákvað að fara að sinna alnæmissjúkum á Borgarspítalanum, eftir að hafa sinnt sama sjúklingahópi í Bandaríkjunum, varð móðir hennar óttaslegin. „Ég trúi því ekki að þú ætlir að taka þessa áhættu,“ segir hún að móðir sín hafi sagt. „Þú getur smitast, dáið.“
Hún rifjar upp hvernig sjúklingar með hvítblæði á A-7, smitsjúkdómadeildinni á Borgarspítalanum í Fossvogi, hafi átt samúð allra óskipta. Þeir voru taldir hinir hreinu á meðan alnæmissjúklingar á sömu deild þóttu óhreinir. Í baksýnisspeglinum sé hægt að líta á viðbrögð fólks sem kjánaleg en hún minnir á að þekking heilbrigðisstarfsfólksins á sjúkdómnum hafi verið lítil fyrst í stað.
Hún segir frá því í bókinni hversu eitt starfsfólkið sem sinnti alnæmissjúkum hafi verið. Að starfsmenn á rannsóknarstofum spítalans hafi neitað að taka blóð úr sjúklingunum og þeir sem unnu á deildinni hafi orðið að gera það sjálfir. Erfitt var að fá röntgenmyndir teknar og fá eitthvað gert fyrir þá sjúku. „Það voru allir svo hræddir,“ segir hún og veltir fyrir sér ófagmennsku sérfræðinganna sem neituðu að kryfja lík alnæmissjúklinga. Smitsjúkdómalæknarnir hafi orðið að framkvæma krufningarnar sjálfir.
Umræðan í samfélaginu var einnig mjög neikvæð. Fólk neitaði að fara í sjúkrabíla sem hefðu flutt HIV-smitaða. Aðrir sjúklingar vildu síður vera á sömu deild og þeir.
Hún segist einnig hugsa um pabbana sem höfðu yfirgefið syni sína en sátu frammi á gangi í angist á meðan mæðurnar vöktu yfir veikum sonum sínum. Á 25 manna deildinni var helmingur smitaður af alnæmi þegar mest lét. Allt ungir menn. „Þeir voru líka eins og örmjó veikburða strá,“ segir hún. Illgresi samfélagsins, baðaðir fordómum og ótta.
Á spítalanum fengu þeir hverja sýkinguna á fætur annarri. Langflestir fengu lungnabólgu og ónæmiskerfið hrundi. Starfsfólk smitsjúkdómadeildarinnar varð að verja sig. Það klæddist hlífðarfatnaði til að smitast ekki. Hjúkrunarfræðingurinn segir þau hafa unnið af fagmennsku og ábyrgð en líka af umhyggju. „Við lögðum okkur fram. Ég sé ekki eftir neinu,“ segir hún.
Í BS-verkefni Hlyns Indriðasonar við læknadeild Háskóla Íslands frá árinu 2013 var fjallað um HIV á Íslandi á árabilinu 1983-2012. Niðurstaða Hlyns er sú að á þessu tímabili hafi greinst 278 manns með HIV á Íslandi og 39 þeirra hafi látist vegna alnæmis. Það segir þó ekki alla söguna þar sem hluti sjúklinganna flutti frá landinu. Í bókinni Berskjaldaður segir Einar frá nokkrum vinum sínum sem flúðu land en sumir þeirra sneru svo aftur heim til að deyja.
Einar lifði pláguna af. Ný lyf komu á markað í tæka tíð og björguðu lífi hans. Hann er í dag framkvæmdastjóri samtakanna HIV Íslands.