Borgun greinir frá því í dag að fyrirtækið hafi sagt upp 29 manns í hópuppsögn, sem tilkynnt var um hjá fyrirtækinu í dag.
Í fréttatilkynningu fyrirtækisins segir að alls hafi verið ráðnir nærri sextíu nýir starfsmenn til Borgunar á síðustu mánuðum „í tengslum við yfirstandandi umbreytingu Borgunar yfir í þjónustumiðað tæknifyrirtæki.“
„Á sama tíma hefur verið dregið úr umsvifum á öðrum sviðum fyrirtækisins til að snúa við rekstrartapi. Það hefur því miður kallað á fækkun starfsfólks á þeim sviðum,“ segir í tilkynningu Borgunar.
Borgun var selt til nýrra eigenda fyrr á þessu ári og í júlí komst fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands að þeirri niðurstöðu að alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay Co Ltd., sem er með skráð aðsetur á Caymaneyjum, væri hæft til þess að fara með ráðandi eignarhlut í greiðslumiðlunarfyrirtækinu.
Greint var frá því í mars að Salt Pay hefði keypt samtals tæplega 96 prósenta hlut í félaginu, 63,5 prósent hlut Íslandsbanka og rúmlega 33 prósenta hlut Borgunar slf. Kaupverðið nam um 4,3 milljörðum króna.
Þegar kaupin áttu sér stað var fjöldi starfsmanna Borgunar, sem hefur sérhæft stig í rafrænni greiðslumiðlun, um 130.