Kaup Seðlabankans á íslenskum krónum til að styrkja gengi hennar námu 38 milljörðum í október, en það eru umfangsmestu krónukaup bankans í að minnsta kosti 20 ár. Inngripin voru 66 prósent af heildarveltunni á gjaldeyrismarkaði og eru það einnig mestu ítök bankans á heildarmarkaði í nokkur ár.
Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans um gjaldeyriskaup. Samkvæmt tölunum voru kaupin líka umfangsmikil í september og ágúst á þessu ári, en þá námu þau 25 og 16 milljörðum króna. Leita þarf aftur til tíma bankahrunsins í október og nóvember 2008 til að finna kaup á krónum af þvílíkri stærðargráðu, en þá keypti hann 21 og 29 milljarða króna.
Líkt og sjá má á mynd hér að ofan hefur umfang gjaldeyrisinngripa aukist hratt frá byrjun heimsfaraldursins síðasta mars, en Seðlabankinn hvorki keypti né seldi krónur í janúar eða febrúar á þessu ári. Umfangið var þó nokkuð minna í vor og fyrri hluta sumarsins, en þá var hlutdeild bankans á gjaldeyrismarkaðnum á milli 20 og 40 prósent. Í ágúst og september var bankinn svo með helming allra viðskipta á gjaldeyrismarkaðnum, en hlutfallið var komið upp í tvo þriðju í október.
Á síðasta vaxtaákvarðanafundi 18. nóvember sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að bankinn hafi þurft að beita inngripum á gjaldeyrismarkaði til að halda gengi krónunnar stöðugu. Til viðbótar við þessi inngrip hefur bankinn stundað reglubundin kaup á 27,3 milljörðum króna frá 14. september til að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins.