„Þessi niðurstaða veldur vissulega vonbrigðum,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Vísi eftir ríkisstjórnarfund í ráðherrabústaðnum í dag, en á fundi ríkisstjórnarinnar var meðal annars farið yfir niðurstöðu yfirdeildar MDE og viðbrögð við henni.
Dómsmálaráðherra sagði að vonast hefði verið eftir því að yfirdeildin myndi taka meira mið af málflutningi lögmanna íslenska ríkisins í málinu og að það virtist vera margt athyglisvert í dómnum, sem hún ætti þó eftir að lesa og rýna betur í. Hann yrði tekinn til ítarlegrar skoðunar af hálfu stjórnvalda.
Áslaug Arna tjáði sig lítið efnislega um niðurstöðuna og sagðist verða tilbúin til þess að svara fleiri spurningum um málið í dag. Hún sagði þó ljóst að þessi niðurstaða hefði ekki neina réttaróvissu í för með sér.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi niðurstöðuna einnig við Vísi, sem streymdi beint frá ráðherrabústaðnum í hádeginu. Hún sagðist náttúrlega ekki hafa lesið niðurstöðuna, sem kunngjörð var upp úr kl. 10 í morgun.
Við fyrstu sýn liti þó út fyrir, sem raunin er, að hann snerist einungis um þá fjóra dómara sem Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra ákvað að skipa og ganga þar með framhjá mati hæfisnefndar, en ekki alla dómarana fimmtán sem skipaðir voru.
Niðurstaða yfirdeildarinnar felur einnig ekki í sér kröfu um að öll mál sem þessir fjórir dómarar dæmd í skuli endurupptekin, en forsætisráðherra sagði þó öllum frjálst að óska eftir því að fá sín mál upptekin að nýju.
Forsætisráðherra sagði þó bent á „mjög alvarlega annmarka“ í niðurstöðu yfirdeildarinnar, sem Sigríður Á. Andersen hefði axlað ábyrgð á með því að láta af embætti dómsmálaráðherra.
Hún sagði það skýra málin að fá niðurstöðu yfirdeildarinnar. Hún hefði verið búin undir ýmsa möguleika varðandi niðurstöðu dómstólsins og að sitt mat væri að nú yrði hægt að fara að „horfa fram á veginn.“