„Dómskerfið er einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags og mikilvægi aðgreiningar þess frá öðru valdi verður seint ofmetið. Án sjálfstæðra dómstóla, sem þjóðfélagsþegnar geta treyst til þess að komast að óvilhallri niðurstöðu í lagalegum deilum þeirra á milli, er lýðræðinu sjálfu ógnað.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Gagnsæis, samtaka gegn spillingu, á Facebook í dag. Tilefnið er niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun en hann staðfesti dóm réttarins í Landsréttarmálinu svokallaða. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan fimmtán dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Í færslu Gagnsæis kemur fram að einróma niðurstaða yfirdeildar MDE sé skýr varðandi það að ferlið við skipun í Landsrétt hafi ekki byggt á lögum og verið til þess fallið að vekja upp alvarlegan ótta um óeðlileg afskipti af dómsvaldinu.
„Þeir sem bera ábyrgð á því að brjóta niður traust á dómstólum ættu ekki að koma að frekari trúnaðarstörfum fyrir hönd almennings. Skipan hinna ólöglega skipuðu dómara hlýtur að verða tekin til endurskoðuðnar,“ segir í færslunni.
Niðurstaðan vonbrigði
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra brást við dómnum í dag og sagði niðurstöðuna vissulega vonbrigði. Hún sagði í samtali við Vísi að vonast hefði verið eftir því að yfirdeildin myndi taka meira mið af málflutningi lögmanna íslenska ríkisins í málinu og að það virtist vera margt athyglisvert í dómnum, sem hún ætti þó eftir að lesa og rýna betur í. Hann yrði tekinn til ítarlegrar skoðunar af hálfu stjórnvalda.