Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um að breyta fyrirkomulagi við innheimtu útvarpsgjalds sem á að standa undir fjármögnun á stærstum hluta af starfsemi RÚV.
Í frumvarpinu er lagt til að gjaldið verði innheimt með beinum hætti tvisvar á ári og að meginstefnu rafrænt með greiðsluseðli í heimabanka líkt og gert hefur verið með bifreiðagjöld. Tilkynning um álagningu mun samkvæmt þessu teljast birt einstaklingi eða lögaðila þegar hann getur nálgast hana í pósthólfi á vefsvæðinu Ísland.is. Álagningin telst bindandi frá og með þeim degi.
Í greinargerð frumvarpsins segir að með þessu verði „horfið frá því að innheimta útvarpsgjaldið samhliða álagningu opinberra gjalda en aðrir þættir varðandi gjaldskyldu, undanþágur frá gjaldskyldu og upphæð gjaldsins verði óbreyttir. Ríkisskattstjóri og innheimtumenn ríkissjóðs sjái um innheimtu gjaldsins.“
Því er ekki verið að leggja til að lögþvinguð áskrift að RÚV í formi útvarpsgjalds verði hætt, heldur telja flutningsmennir að með beinni innheimtu aukist eðlilegt og nauðsynlegt aðhald að RÚV, jafnt rekstrarlega og faglega við dagskrárgerð. „Bein innheimta útvarpsgjalds stuðlar að betri kostnaðarvitund almennings þegar kemur að tekjuöflun Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu.“
RÚV telur sig vanta 600 milljónir á næsta ári
RÚV stendur að óbreyttu frammi fyrir umtalsverðum niðurskurði á næsta ári. Í umsögn sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sendi inn til fjárlaganefndar um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp sagði að auglýsingatekjur RÚV verði um 300 milljónum króna lægri á árinu 2020 en áætlað var, beinn aukinn kostnaður fyrirtækisins vegna hlutverks RÚV í COVID-19 faraldrinum er hátt í 80 milljónir króna og gengislækkun og aðrir liðir hafa hækkað fjármagnsliði fyrirtækisins um 90 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða RÚV verður því 470 milljónum krónum verri í ár en stefnt var að.
Staðan á næsta ári, 2021, verður mun alvarlegri sögn Stefáns. Gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi að framlög til RÚV úr ríkissjóði verði lækkuð um 310 milljónir króna milli ára og verði rúmlega 4,5 milljarðar króna. Þau voru rúmlega 4,8 milljarðar króna á yfirstandandi ári.
Heildarfjárheimild til fjölmiðla, sem fjármögnuð er með að mestu með innheimtu útvarpsgjalds, er áætluð fimm milljarðar króna. Það þýðir að 484 milljónir króna munu fara í eitthvað annað RÚV. Þar af fara 92 milljónir króna í rekstur Fjölmiðlanefndar en það sem út af stendur, 392 milljónir króna, er ætlaður stuðningur við einkarekna fjölmiðla.
Stefán sagði að nettó áhrif af framangreindri lækkun útvarpsgjaldsins yrðu mun meiri en 310 milljónir króna í ljósi þess að RÚV líkt og aðrir standi frammi fyrir verðlagshækkunum á næsta ári í sínum rekstri, þar á meðal vegna nýrra kjarasamninga. Hann taldi að það ætti að meta áhrifin á um 400 milljónir króna vegna þessa. Stefán sagði auk þess að áfram sé gert ráð fyrir verulegum samdrætti í auglýsingatekjum á næsta ári. „Árið 2021 mun því í heild vanta yfir 600 m. kr. í fjármögnun RÚV,“ skrifaði Stefán í umsögn sína.
Fyrirsjáanlegt væri að mæta þyrfti þessari stöðu með breytingum og samdrætti í dagskrárgerð og fréttaþjónustu RÚV.