Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, vill að ráðningarbann verði sett á Reykjavíkurborg til tveggja ára. Þetta kemur fram í grein sem hún skrifar í Morgunblaðið í dag.
Þar segir hún að samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021, sem birt var í fyrradag, sé gert ráð fyrir að fimmti hver vinnandi borgarbúi verði borgarstarfsmaður og að starfsfólki borgarinnar muni fjölga um 622 á tveggja ára tímabili.
Hildur segir að samkvæmt fjöldatölum Hagstofunnar séu nú 65.562 starfandi einstaklingar með lögheimili í Reykjavík. Þar af muni 12.250 starfa hjá Reykjavíkurborg í árslok 2021. Það sé ósjálfbært að ætla 19 prósent af vinnandi fólki að verða launþegar hjá Reykjavíkurborg. „Fjölgun opinberra starfsmanna er rangt viðbragð við auknu atvinnuleysi. Mikilvægasta atvinnuskapandi aðgerðin verður alltaf sveigjanlegra regluverk, lægri álögur og myndarlegri stuðningur við atvinnulíf. Þannig sköpum við skilyrði til verðmætasköpunar - verjum störf og sköpum tækifæri til viðspyrnu.“
Ætla að skapa störf fyrir þá sem færu annars á bætur
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna ársins 2021 er gert ráð fyrir að A-hluti hennar, sá hluti rekstursins sem fjármagnaður er með skatttekjum, verði rekinn með 11,3 milljarða króna halla á næsta ári. Tap á rekstri borgarinnar er áætlað 7,2 milljarðar króna í ár og 2,9 milljarðar króna árið 2022. Því er viðbúið að A-hluti borgarinnar verði rekinn í 21,4 milljarða króna tapi á þriggja ára tímabili. Til samanburðar skilaði A-hlutinn 13,7 milljarð króna hagnaði frá byrjun árs 2016 og út síðasta ár.
COVID-19 spilar þar vitanlega stærsta hlutverkið enda spáð mesta samdrætti á Íslandi í heila öld á yfirstandandi ári. Áætlað tekjufall borgarinnar vegna faraldursins er 12,5 milljarðar króna í ár. Áætlanir borgarinnar gera ráð fyrir að tekjustofnar hennar verði áfram veikir á næstu tveimur árum og að útsvarstekjur nái ekki fyrri styrk fyrr en á árinu 2025.
Í tilkynningu frá borginni vegna framlagningu áætlunarinnar var haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að efnahagssamdrætti og tekjufalli yrði mætt með lántökum en borgin myndi nýta styrk sinn og vaxa út úr samdrættinum á nokkrum árum. „Við leggjum fram sóknaráætlun til skammtíma og ábyrga græna sýn um sjálfbærni á öllum sviðum til lengri tíma. Græna planið er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun út úr kórónuveirukreppunni og þannig getum við bæði staðið vörð um störfin, skapað ný störf og búið til samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur.“
Þau störf sem á að skapa eru ætluð fyrir fólk sem annars færi á fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Milljarði króna verður varið í að búa til ný störf fyrir atvinnulausa, stuðningsúrræði og virkni fyrir fólk á fjárhagsaðstoð á næsta ári.