Lágir vextir og jákvæðar fréttir um bóluefni hafa leitt til hækkunar verðs á hlutabréfum á þessu ári. Auk þess hefur aukinn áhugi almennings á hlutabréfamarkaðinn, yfirtökuáhrif og samrunar haft mikil áhrif á markaðinn. Þetta skrifar Eggert Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Kviku eginastýringu hf., í grein sinni sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Skuldsettir fjárfestar hurfu
Í greininni fer Eggert yfir þróun hlutabréfamarkaðarins á þessu ári, en hann hefur sveiflast nokkuð frá því að kórónuveiran breiddi hratt úr sér í vor. Í kringum fyrstu bylgjuna í mars lækkaði úrvalsvísitala Kauphallarinnar um tæpan fimmtung, en samkvæmt Eggerti breytti sú lækkun samsetningu fjárfesta á hlutabréfamarkaðnum til muna. með lækkandi verði hafi æ fleiri skuldsettir fjárfestar selt út hlut sinn, en á kauphliðinni voru óskuldsettir langtímafjárfestar, og þá sér í lagi lífeyrissjóðir, sem juku við hlut sinn á markaðnum.
Lægri vextir ýta undir áhættusækni
Eggert bætir einnig við að vaxtalækkanirnar sem Seðlabankinn réðst í í vor hafi haft mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Með lægri vöxtum bötnuðu rekstrarhorfur fyrirtækja þar sem fjármagnskostnaður þeirra minnkaði, en samkvæmt Eggerti er líka ljóst að lækkunin ýtti undir áhættusækni fjárfesta, þar sem ávöxtunin á öðrum fjárfestingavalkostum hafði lækkað.
„Lækkun langtímavaxta leiðir til lægri ávöxtunarkröfu sem fjárfestar gera til hlutabréfa og eykur virði frjáls sjóðstreymis. Þá er sparnaður heimila í sögulegu hámarki og ljóst að yfir 3% neikvæðir raunvextir bíta hressilega í. Er því ekki nema von að innlánseigandinn leiti í áhættusamari fjárfestingarkosti sem hann telur að skili betri ávöxtun,“ skrifar Eggert í greininni sinni.
Útboð Icelandair og vonir um bóluefni hækka verð
Samkvæmt Eggerti olli hlutafjárútboð Icelandair Group í september straumhvörfum hvað varðar beina þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Hluthöfum félagsins fjölgaði úr rúmum 3 þúsund í 11 þúsund, en annar eins fjöldi hefur ekki sést hjá íslensku hlutafélagi eftir hrunið.
Til viðbótar við fjölda nýrra fjárfesta virðist sem bjartsýni þeirra hafi aukist í kjölfar jákvæðra frétta um bóluefni gegn COVID-19 á síðustu vikum. Hlutabréf í Icelandair hækkuðu til að mynda um nær helming á nokkrum dögum eftir að fyrstu fréttir þess efnis bárust, en fimm félög í Kauphöllinni hækkuðu um meira en 10 prósent í október.
Þrýstingur líklegur í framtíðinni
Eggert nefnir einnig að ýmislegt bendi til þess að jákvæður þrýstingur verði á hlutabréfamarkaðnum á næstunni, til dæmis sé líklegt að vextir muni haldast lágir í einhvern tíma, auk þess sem ólíklegt er að lífeyrissjóðir farið með stórar fjárhæðir út úr landi, þar sem hlutfall erlendra eigna þeirra er komið nær hámarki.
Einnig segir Eggert að ekki sé ólíklegt að félögum geti fækkað á innlendum markaði, í kjölfar samruna og afskráninga. Kjarninn greindi nýlega frá fyrirhuguðum samruna Kviku og T M, en fasteignafélagið Heimavellir voru einnig teknir af markaði í ár, auk þess sem hópur fjárfesta hefur gert yfirtökutilboð í Skeljungi. Samkvæmt Eggerti hefur sá hópur í hyggju að taka félagið af markaði. Þessir þættir, að mati Eggerts, gætu hæglega leitt til eignabólu og segir hann því þetta geta verið ákjósanlegar aðstæður fyrir önnur fyrirtæki að skrá sig á markað, til að mynda Landsbankann, sem er nú í eigu ríkisins.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.