Heilbrigðisútgjöld íslenska ríkisins námu um sjö prósentum af landsframleiðslu árið 2018, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat. Þetta er nær prósentustigi lægra en í Evrópusambandinu og meira en einu og hálfu prósentustigi lægra en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Ísland undir ESB og flestum Norðurlöndum
Eurostat birti í síðustu viku yfirlit yfir heilbrigðisútgjöld allra aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB), auk aðildarríkja EFTA, árið 2018. Þar mátti sjá samanburð á heildarútgjöldum til heilbrigðismála, auk þess sem þau voru skipt eftir því hvort þau innt af hendi af einkaaðilum eða ríkinu.
Samkvæmt þessum tölum vörðu Íslendingar 8,5 prósentum af landsframleiðslu í einka- og ríkisrekna heilbrigðisþjónustu. Þetta var nokkuð lægra hlutfall en í Evrópusambandinu, þar sem heildarútgjöldin námu að meðaltali 9,9 prósentum af landsframleiðslu. Af þjóðunum 32 sem mældar voru voru útgjöld Svisslendinga til heilbrigðisþjónustu mest, en minnst í Lúxemborg, ef tekið er tillit til landsframleiðslu.
Ef einungis ríkisútgjöld til heilbrigðisþjónustu eru skoðuð blasir við önnur mynd, en þar raða Þýskaland og Frakkland, ásamt Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sér í fimm efstu sætin. Ríkissjóður þessara þriggja Norðurlanda ver 8,5 til 9,3 prósentum af landsframleiðslu í heilbrigðisútgjöld og er það nokkuð hærra en meðaltal Evrópusambandsins, sem eru 7,8 prósent af landsframleiðslu.
Opinber útgjöld til heilbrigðismála hér á landi er enn lægra hlutfall af landsframleiðslu, en þau jafngilda rétt rúmlega sjö prósentum af landsframleiðslu. Hlutfallið var svipað hátt og í Finnlandi, þar sem það náði 6,95 prósentum árið 2018.
Tölurnar frá Eurostat eru í samræmi við tölur sem vinna má á vef Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), en ná þó til 2019. Heilbrigðisútgjöld hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu á Norðurlöndunum síðustu sex árin má sjá á mynd hér að ofan, en samkvæmt henni var hlutfallið lægst á Íslandi þangað til fyrir tveimur árum síðan. Í fyrra hækkaði svo hlutfallið upp í 7,3 prósent af landsframleiðslu, en var það þó enn rúmu prósenti lægra en í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.
Stærsta undirskrifarsöfnun Íslandssögunnar
Fyrir rúmum fjórum árum síðan stóð Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að stærstu undirskriftarsöfnun Íslandssögunnar til að þrýsta á stjórnvöld til að verja meiri fjármunum í heilbrigðisþjónustu. Alls söfnuðust 85 þúsund undirskriftir vegna þessa máls og voru þær afhentar Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi forsætisráðherra í lok aprílmánaðar árið 2016.