„Á einhver örlítill grenjandi minnihluti að hafa neitunarvald um það að þjóðin megi stofna þennan þjóðgarð sinn á sínu eigin landi?“ spurði Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna í ræðu sinni um Hálendisþjóðgarð á Alþingi í kvöld.
Forseti Alþingis er ekki tíður gestur í ræðustól þingsins, en Steingrímur sagðist hafa látið það eftir sér að halda ræðu um málið, sem hann sagði sér mikilvægt. „Ég hef sterkar taugar til þessa svæðis,“ sagði Steingrímur og bætti því við að fyrir honum væri leyndist hjarta Íslands og helgidómar á hálendinu.
„Fyrir okkur sem ekki eru trúuð er vissulega hægt að komast í helgidóma, þeir eru kannski annars eðlis heldur en kirkjur eða moskur. Mér er það mikið tilfinningamál að við stöndum okkur, núverandi kynslóð í landinu, í gæslu okkar fyrir þessum perlum sem þarna liggja,“ sagði hann og bætti við að hann fagnaði því mjög að frumvarpið væri komið fram til umræðu á Alþingi.
Sagðist hann þess fullviss að hægt yrði að breikka samstöðu enn frekar um málið í meðförum þingsins, en sagði þó þegar vísbendingar um að 65 prósent þjóðarinnar væru hlynnt því að stofna þennan þjóðgarð og vildu fá sinn hálendisþjóðgarð.
„Að sjálfsögðu á að leita eins góðrar samstöðu og mögulegt er, en ég segi líka alveg hiklaust að sá síðasti eigi ekki að hafa neitunarvald,“ sagði Steingrímur.
Síðan spurði hann hvort það væri svo að „einhver örlítill grenjandi minnihluti“ ætti að hafa neitunarvald gagnvart þjóðinni um þjóðgarðinn. Svo rakti Steingrímur að verið væri að tala um þjóðlendurnar, hina gömlu almenninga Íslands.
Hann minnti á að þverpólitíska nefndin um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, sem hann sat í fyrir hönd Vinstri grænna, hefði valið þá leið til að greiða götu málsins, að draga minnsta samnefnara og marka Hálendisþjóðgarði svæði utan um þjóðlendur innan hálendislína. „Er þá ekki staðan býsna sterk, til að inn á því svæði megi þjóðin stofna sinn þjóðgarð?“
Verið að færa „stóraukin áhrif og völd“ til heimafólks
Þau sjónarmið að með stofnun Hálendisþjóðgarðs sé verið að færa skipulagsvöld frá sveitarfélögum hafa heyrst í umræðum um málið.
Steingrímur sagði sveitarfélögum landsins tryggður alveg „óheyrilega sterkur vettvangur“ innan stjórnsýslu fyrirhugaðs þjóðgarðs, ásamt fleirum sem þyrftu að koma að málum svo að vel færi.
Hann sagði undarlegt að engir alþingismenn hefðu minnst á það í umræðum kvöldsins að með þessu frumvarpi væri verið að færa sveitarfélögum, heimamönnum, umsýslu friðlýstra svæða sem Umhverfisstofnun færi með nú. Steingrímur sagði auk þess að ekki væri með frumvarpinu verið að raska neinum hefðbundnum nytjum á svæðunum. Það skilyrði væri þó gert að þær nytjar væru sjálfbærar.
Steingrímur sagði að öfugt við það sem væri oft heyrðist í umræðunni væri í raun verið að færa heimamönnum „stóraukin áhrif og völd í þessu frumvarpi“.
Stjórnmálamönnum verði þakkað um aldir
Hann setti fram þann spádóm undir lok ræðu sinnar, að þeirri kynslóð íslenskra stjórnmálamanna sem skilaði í höfn því verki að stofna þennan „stórkostlega merkilega þjóðgarð á heimsvísu, með gríðarlegum tækifærum fyrir okkur öll,“ yrði þakkað um aldir á Íslandi.
„Við erum ekki að taka neitt frá neinum með því að stofna þennan þjóðgarð, við erum að tryggja að hlutir verði til, óskemmdir og ósnortnir, handa komandi kynslóðum,“ sagði Steingrímur.