Flokkur fólksins hagnaðist um tæplega 43 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur flokksins komu nær einvörðungu úr opinberum sjóðum. Alls nam fjárframlag úr ríkissjóði 62,2 milljónum króna og fjárframlag frá Reykjavíkurborg var tæplega 1,1 milljón krónur. Einu öðru tekjurnar sem Flokkur fólksins hafði á árinu 2019 voru félagsgjöld upp á 295 þúsund krónur. Þau rúmlega helminguðust á milli ára.
Kostnaðurinn við rekstur flokksins, sem er með tvo þingmenn á þingi og einn fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur, er einungis brot af tekjum hans. Í fyrra kostaði reksturinn alls 22,1 milljón króna og því sat meginþorri þeirrar fjárhæðar sem Flokkur fólksins fékk úr ríkissjóði eftir á bankareikningi hans í árslok. Svipað var uppi á teningnum árið 2018 þegar hagnaður Flokks fólksins var 27 milljónir króna.
Því á flokkurinn 65,6 milljónir króna í handbært fé og búast má við að nokkrir tugir milljóna króna bætist við þá upphæð í ár og á því næsta sem munu nýtast í kosningabaráttuna sem er framundan vegna þingkosninga í september 2021.
Samanlagt verða þau um 2,8 milljarðar króna á kjörtímabilinu öllu. Þá eru ótalin framlög úr sjóðum sveitarfélaga.
Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
68 prósent af veltu
Flokkur fólksins, með Ingu Sæland í broddi fylkingar, fékk 6,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og er minnsti flokkurinn á þingi. Upphaflega voru þingmennirnir fjórir en tveir þeirra, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, voru reknir úr flokknum eftir Klaustursmálið og gengu skömmu síðar til liðs við Miðflokkinn. Flokkurinn hefur sjaldnast mælst inni á þingi á kjörtímabilinu í könnunum en á því varð þó breyting í könnun MMR sem birt var í vikunni. Þar mældist fylgið 6,2 prósent.
Hagnaður Flokks fólksins í fyrra var um 68 prósent af veltu. Til samanburðar var hagnaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, Sjálfstæðisflokks, tæplega 20 prósent af veltu.
Stjórnmálaflokkarnir áttu allir að skila inn ársreikningum til Ríkisendurskoðunar fyrir 1. nóvember og eru reikningarnir birtir nú birtir í heild sinni í fyrsta sinn eftir að Ríkisendurskoðun fer yfir þá. Áður voru einungis birtir útdrættir úr reikningunum.
Sex flokkar skiluðu á réttum tíma og reikningar þeirra voru birtir 21. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að samanlagt skiluðu þessir sex flokkar, sem eru allir stjórnmálaflokkar á þingi utan Pírata og Flokks fólksins, hagnaði upp á 304 milljónir króna á árinu 2019.
Stjórn Flokks fólksins skrifaði undir reikning hans 4. desember, rúmum mánuði eftir að fresturinn rann út.
Eini ársreikningur flokks sem er með sæti á þingi sem Ríkisendurskoðun hefur ekki birt er reikningur Pírata.