Þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur verði falið að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum „sem hafi að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málefna útlendinga og auka skilvirkni í málsmeðferð.“
Miðflokkurinn vill að ráðherra leggi slíkt frumvarp fram eigi síðar en 1. mars, svo lögfesta megi breytingarnar fyrir þinglok og að „áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða.“
Í greinargerð með tillögunni segir að innflytjendamál á Íslandi einkennist af „vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka,“ sem hafi leitt af sér sívaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins, sem fylgt hafi „lögmáli veldisvaxtar.
Segir þar einnig að hælisleitendur bíði í sumum tilvikum árum saman eftir því að fá niðurstöðu. Með því sé mikið lagt á fólk sem hingað leitar og um leið ýti þetta undir „tilhæfulausar umsóknir.“
„Slíkum umsóknum er sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikarnir eru mestir. Úr verður skaðleg keðjuverkun, ekki síst fyrir þá sem þurfa mest á hjálp að halda,“ segir þingflokkur Miðflokksins í greinargerðinni.
Einnig segir þingflokkurinn í greinargerð sinni að umsóknum um alþjóðlega vernd hafi fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum.
Þegar litið er upp úr þingskjali Miðflokksins og á tölur frá Útlendingastofnun sést að umsóknum fjölgaði úr 354 árið 2015 í 1.132 árið 2016, sem enn er metár hvað fjöldann varðar.
Umsóknum fækkaði svo í 1.096 árið 2017 og fækkaði svo aftur árið 2018, er umsóknirnar voru 800 talsins. Árið 2019 fjölgaði þeim lítillega og voru 867 en útlit er fyrir að þær verði færri í ár og raunar færri en þær hafa verið frá 2015. Alls sóttu 596 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi á fyrstu tíu mánuðum ársins 2020.
Miðflokkurinn segir í greinargerð sinni, eins og áður var nefnt, að kostnaður ríkisins vegna málaflokksins hafi fylgt „lögmáli veldisvaxtar“ á undanförnum árum.
Vert er að taka fram að kostnaður ríkisins við það sem er kallað „útlendingamál“ í ár er áætlaður um fjórir milljarðar króna. Það er mjög svipuð upphæð og kostnaðurinn hefur verið undanfarin ár. Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn verði svipaður næstu árin.
„Keðjuverkun“ sem ríkið ráði ekki við
Þingflokkur Miðflokksins segir að íslensk stjórnvöld verði „að ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum“ ella haldi áfram „keðjuverkun sem 350.000 manna ríki mun ekki ráð við“ og segja löggjöf um málaflokkinn haldna alvarlegum ágöllum.„Hún ýtir undir þessa þróun, tekur lítið tillit til raunveruleikans og er ekki til þess fallin að beina aðstoðinni að þeim sem þurfa mest á henni að halda. En það þarf líka að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda og hafa virkað. Dyflinnarreglugerðin var ekki sett að ástæðulausu. Samkvæmt henni á að afgreiða hælisumsóknir í því Evrópulandi sem umsækjandinn kemur fyrst til. Eftir að íslensk stjórnvöld fóru að víkja frá henni varð landið fyrst að áfangastað þeirra sem ekki eiga tilkall til alþjóðlegrar verndar. Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?“ segir þingflokkurinn í greinargerð sinni.
Miðflokksfólk kallar sem áður segir eftir skilvirkri löggjöf þar sem „umsóknir eru afgreiddar hratt“ og að allar „reglur sem notaðar eru til að skapa óraunhæfar væntingar um Ísland sem áfangastað“ verði afnumdar.
„Aðrar Norðurlandaþjóðir keppa nú hver við aðra um að draga úr væntingum fólks um dvalarleyfi. Allar nema Ísland. Ef við skerum okkur úr á þessu sviði meðal norrænu landanna verður ekki við neitt ráðið. Það hefur varla farið fram hjá fólki að þrátt fyrir að landið sé nánast lokað vegna heimsfaraldursins kemur hingað enn mikill fjöldi fólks sem telur Ísland vænlegasta kostinn fyrir hælisumsókn,“ segir í greinargerðinni, sem lesa má í heild sinni á vef Alþingis.