Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka og fyrrum þingmaður Vinstri grænna, segir það vera tímabært og mikilvægt að uppfæra markmið Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frá þessu greinir hann á Facebook í dag en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun kynna ný markmið Íslands í loftslagsmálum á leiðtogafundi 12. desember næstkomandi.
Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að samdráttur verði aukinn í losun gróðurhúsalofttegunda – úr núverandi markmiði um 40 prósent samdrátt miðað við árið 1990 í 55 prósent eða meira til ársins 2030 en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi.
„Með því að setja markið á 55 prósent samdrátt er ríkisstjórnin hins vegar ekki að velja sér metnaðarfull markmið, heldur bara að festa á blað það lágmark sem er líklegt að Ísland verði hvort eð er að taka upp í samstarfi við Evrópusambandið,“ skrifar Andrés Ingi á Facebook.
Danmörk með markmið um 70% samdrátt
Hann segir að frá því að ESB lýsti yfir neyðarástandi í loftslagsmálum fyrir ári síðan hafi verið ljóst að það stefndi í að uppfæra sín markmið úr 40 prósent í 55 prósent. Evrópuþingið samþykkti svo í október á síðasta ári að stefna frekar að 60 prósent en það komi væntanlega í ljós á leiðtogafundi í dag hvort markmiðið verði ofan á.
„Innan Evrópu eru síðan einstök ríki sem sýna mikinn metnað og ætla sjálf að ganga lengra en sameiginleg markmið ESB krefjast, eins og Danmörk sem lögfesti í vor markmið um 70 prósent samdrátt í losun. Því miður virðist núverandi ríkisstjórn Íslands ekki ná saman um metnaðarfull markmið eins og dönsku kollegarnir. Hér á landi er lágmarksmetnaðurinn látinn duga í stærsta úrlausnarefni samtímans,“ skrifar hann.
Efla aðgerðir til að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040
Leiðtogafundurinn fyrrnefndur þar sem forsætisráðherra mun kynna ný markmið er haldinn á fimm ára afmæli Parísarsáttmálans á vegum Sameinuðu þjóðanna með breskum og frönskum stjórnvöldum, í samvinnu við Chíle og Ítalíu. „Tilgangur fundarins er að vekja athygli á loftslagsvánni og skapa vettvang fyrir nýja sókn til að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og leita leiða til að takmarka hlýnun við 1,5°C,“ segir á vef Stjórnarráðsins en í tilkynningunni segir að nýju markmiðin séu metnaðarfull.
Markmiðin eru þrjú:
- Aukinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40 prósent samdrátt miðað við árið 1990 í 55 prósent eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi.
- Efldar aðgerðir til að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040 og áfangamarkmiði um kolefnishlutleysi losunar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í kringum árið 2030.
- Aukin áhersla á loftslagstengd þróunarsamvinnuverkefni, einkum á sviði sjálfbærrar orku með tilliti til íslenskrar sérþekkingar.