Í minnihlutaáliti þingmanns Miðflokksins í fjárlaganefnd, Birgis Þórarinssonar, um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp er lagt til að ríkið láti selja nýbyggingu Landsbankans við Austurhöfn til að fjármagna þær breytingartillögur sem Miðflokkurinn leggur til á frumvarpinu. Birgir telur að slík sala myndi skila samtals níu milljörðum króna og að sú upphæð ætti að greiðast sem arður í ríkiskassann, tveir milljarðar króna vegna sölu lóðar og sjö milljarðar króna vegna sölu á byggingunni.
Auk þess leggur hann til að fallið verði frá hækkun á framlagi til RÚV og að gerð verði hagræðingakrafa upp á hálfan milljarð króna á ráðuneyti landsins. Samanlagt ætti þetta, að mati Birgis, að skila tæplega 9,7 milljarða króna tekjum fyrir ríkissjóð.
Þessum fjármunum vill Miðflokkurinn ráðstafa í ýmis verkefni. Dýrast þeirra er að lækka tryggingagjald enn frekar á árinu 2021, en sú aðgerð er metin á 3,3 milljarða króna. Tveir milljarðar króna eiga að fara í ráðningastyrki á Suðurnesjum, kjördæmi Birgis, og 1,5 milljarðar króna eiga að fara í að draga úr skerðingum atvinnutekna á lífeyrisgreiðslum.
Engin pólitísk ákvörðun á bakvið bygginguna
Kjarninn fjallaði ítarlega um áform Landsbankans um að byggja sér nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn í fréttaskýringu sem birtist í september 2019. Þar kom meðal annars fram að Bankasýsla ríkisins, sem fer með hlut ríkissjóðs í Landsbankanum hefði ekki haft neina aðkomu að þeirri ákvörðun að reisa nýju höfuðstöðvarnar.
Það hefur heldur ekki þótt tilefni til að bera byggingu höfuðstöðva undir hluthafafund, þar sem eini alvöru hluthafinn, íslenska ríkið, gæti sagt sína skoðun á áformunum.
Ákvörðunin um að ráðast í framkvæmdirnar, sem áætlað var að myndu kosta um níu milljarða króna, hækkaði svo í tíu milljarða króna en eru nú orðnir tæpir tólf milljarðar króna, var því tekin án aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem heldur á hlutabréfum íslenska ríkisins í bankanum og stofnunarinnar sem fer með þann eignarhlut.
Hún var tekin af bankaráði á fundi sem haldinn var 16. maí 2017. Landsbankinn, sem er í 98,2 prósent eign skattgreiðenda, hefur ekki viljað upplýsa um hvernig atkvæði féllu hjá sjö manna bankaráðinu þegar kosið var um bygginguna.
Því liggur fyrir að sjö manna bankaráð, sem situr í umboði bankasýslu ríkisins, stofnunar sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, tók eitt ákvörðun um byggingu „Klettsins“ sem nú rís við hlið Hörpu og mun kosta 11,8 milljarða króna, samkvæmt því sem kom fram í ávarpi Helgu Bjarkar Eiríksdóttur, formanns bankaráðs Landsbankans, sem birt var í ársskýrslu hans í febrúar 2020.