Verðandi forseti og varaforseti Bandaríkjanna hafa verið valin manneskjur ársins hjá tímaritinu TIME Magazine, sem hefur staðið fyrir vali á manneskju ársins allt frá árinu 1927.
Í umfjöllun tímaritsins segir að Joe Biden og Kamala Harris hafi í sameiningu boðið bandarísku þjóðinni upp á „endurreisn og endurnýjun“ með framboði sínu. Bandaríkjamenn hafi keypt það sem þau voru að selja, enda sé ljóst að þau hafi hlotið yfir 81 milljón atkvæða, yfir 7 milljónum fleiri atkvæði en Donald Trump, sitjandi forseti landsins.
Samkvæmt frétt á vef Politico voru aðrir sem komu til greina til þess að hljóta nafnbótina hjá TIME í ár Donald Trump Bandaríkjaforseti (sem var manneskja ársins 2016, er hann náði kjöri), framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu, Anthony Fauci forstjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna og einnig samfélagshreyfingin sem barist hefur fyrir réttindum og stöðu minnihlutahópa í Bandaríkjunum.
Á vef Politico er haft eftir Edward Felsenthel, aðalritstjóra TIME, að Biden og Harris hafi hreppt hnossið meðal annars fyrir að sýna fram á samkennd sé máttugri en sundrun.
Felsenthal segir einnig að hver einasti forseti Bandaríkjanna frá því að Franklin D. Roosevelt var og hét hafi á einhverjum tímapunkti verið valinn manneskja ársins, en nú í fyrsta sinn hafi verið ákveðið að hafa varaforsetann með í valinu.