Ávöxtun samfélagslega ábyrgra hlutafélaga í Evrópu er meiri en ávöxtun hlutabréfamarkaðarins í álfunni. Að mati Kristbjargar M. Kristinsdóttur fjármálastjóra Stefnis hf. gæti munurinn falist í því að minni áhætta sé fólgin í fjárfestingum slíkra félaga.
Í grein Kristbjargar í síðasta tölublaði Vísbendingar fer hún yfir ábyrgar fjárfestingar, sem er regnhlífarskilgreining yfir marga flokka af aðferðafræði sem allir stuðla að jákvæðum breytingum með því að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma. Mikið sé horft til þess að fjárfestingarnar taki mið af umhverfis- og félagslegum þáttum og stjórnarháttum félaga (UFS).
Samkvæmt Kristbjörgu er margt sem ýtir undir að ábyrgum fjárfestingarkostum ætti að vegna betur en öðrum, þar sem minni innbygð áhætta sé í rekstri félaga sem fá jákvæða einkunn í UFS-málum. Á hinn bóginn bera fyrirtæki sem ekki eiga sér móralskan áttavita meiri áhættu, og ætti sú áhætta að vera verðlögð á skilvirkum markaði.
Máli sínu til stuðnings vísar Kristbjörg í MSCI-hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu. Ávöxtun vísitölunnar MSCI Europe ESG Leaders, sem inniheldur fyrirtæki sem stunda ábyrgar fjárfestingar, er hærri en ávöxtun vísitölunnar MSCI Europe. Þó bendir Kristbjörg á að lítill munur sé á heimsvísitölu MSCI og vísitölunnar MSCI World ESG Leaders, sem inniheldur ábyrga fjárfestingakosti um allan heim.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér