Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tókust á um tollamál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Taldi Þorgerður Katrín að ríkisstjórnin væri að velja „leið hafta og leið tollverndar í stað þess að beina beinum styrkjum til bænda, verja þá og verja neytendur um leið“. Kristján Þór mótmælti þessum orðum og sagði að það væri „langur vegur frá“.
Tilefni fyrirspurnarinnar er frumvarp landbúnaðarráðherra til laga um breytingu á búvörulögum eða úthlutun tollkvóta en málið gekk til atvinnuveganefndar í byrjun desember. Til stendur að önnur umræða eigi sér stað síðar í vikunni.
Með frumvarpinu er eldra útboðsfyrirkomulag tollkvóta endurvakið tímabundið í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem ríkja nú á markaði vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í inngangi frumvarpsins segir að meginmarkmið þess sé að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða.
„Með lagabreytingu sem tók gildi þann 1. janúar 2020 var svokölluðu jafnvægisútboði komið á vegna úthlutunar tollkvóta. Framangreint fyrirkomulag útboðs var lagt til með hliðsjón af tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara,“ segir í frumvarpinu.
Meginefni þeirra breytinga hafi verið að draga úr kostnaði þeirra sem fengju úthlutað tollkvóta, og stuðla þar með að auknum ábata neytenda, í ljósi nýrra samninga milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um viðskipti með landbúnaðarvörur sem voru undirritaðir 17. september 2015 og tóku gildi 1. maí 2018. „Með samningunum voru tollkvótar fyrir landbúnaðarvörur auknir til muna. Lagabreytingin var þannig lögð fram í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu. Meðal annars var horft til þess að hér á landi yrðu um tvær milljónir ferðamanna á ári hverju. Nú er hins vegar staðan talsvert breytt vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Áhrifanna gætir víða en samkvæmt upplýsingum á vef Ferðamálastofu hefur erlendum gestum til dæmis fækkað gríðarlega milli ára. Í samanburði við árið 2019 var fækkun erlendra gesta um 53 prósent í mars, um 99 prósent í apríl og maí, 97 prósent í júní, 80 prósent í júlí, 75 prósent í ágúst og 95 prósent í september. Í ljósi framangreinds er ljóst að eftirspurn eftir matvælum hefur dregist talsvert saman en innflutningur samkvæmt tollkvótum hefur á sama tíma haldist óbreyttur. Það er innlend matvælaframleiðsla sem tekur það högg og við því þarf að bregðast,“ segir í frumvarpinu.
Með frumvarpinu er því lagt til að eldra fyrirkomulag útboðs tollkvóta verði tekið upp að nýju þar til 1. febrúar 2022. Ef kemur til þess að tollkvóti verði boðinn út allt fram til 1. febrúar 2022 verði það samkvæmt áður gildandi útboðsfyrirkomulagin þar sem tilboðsgjafar greiða þá fjárhæð sem tilboð þeirra hljóðar upp á en ekki lægsta samþykkta verð líkt og jafnvægisútboðið gerir ráð fyrir.
Vill að styrkirnir fari beint til bænda og að milliliðum sé sleppt
Þorgerður Katrín sagði á þingi í dag að eitt af því sem kreppan mikla á síðustu öld hefði kennt okkur, og þá sérstaklega setning Smoot-Hawley laganna í Bandaríkjunum, væri að þegar þjóðir reyndu að bregðast við þungum og miklum efnahagslegum áföllum og vernda innlendan markað með hækkun tolla þá lengdi það kreppuna og dýpkaði hana – og alltaf á kostnað almennings og ekki síst þeirra sem minna mega sín og eru með lægri tekjur.
Hún sagði tollamálið beinlínis vera sett til höfuðs neytendum og bændum. Ríkið ætti að styðja við landbúnað en það ætti ekki að vera gert í gegnum tollmúra.
„Evrópusambandið gerir þetta til að mynda mjög hreinlega, fer ekki í það að byggja upp múra en fer í mjög víðtækar aðgerðir gagnvart bændum. Ég hefði viljað sjá að styrkirnir færu beint til bænda en að þessum milliliðum væri sleppt. En ríkisstjórnin fer einmitt í það að hækka tollmúra, auka höftin, ekki þannig að bændur fái þetta beint til sín og til að styrkja þá eða þá að koma í veg fyrir að matarkarfan hækki til neytenda, heldur miklu frekar þannig að þetta fer beint í milliliðina,“ sagði hún.
Þá benti Þorgerður Katrín á að ASÍ væri á móti frumvarpinu, sem og Samkeppniseftirlitið, Neytendasamtökin og Viðskiptaráð. „Alltaf beina þau sjónum sínum að þessu og vara við því að fara þessa leið. Þetta er gamaldags leið. Þetta er vond leið fyrir heimilin, þetta er vond leið fyrir atvinnulífið sem treystir á að við losum frekar höft og höfum almennar, alþjóðlegar viðskiptareglur en svona gamaldags atriði.
Nú þegar 25.000 manns ganga atvinnulausir hér um landið munar þá um þegar matarkarfan hækkar. Og það er alveg ljóst miðað við þær ábendingar sem við höfum fengið að hún mun hækka.“
Spurði hún ráðherra enn fremur af hverju ríkisstjórnin veldi „leið hafta og leið tollverndar í stað þess að beina beinum styrkjum til bænda, verja þá og verja neytendur um leið“.
Ríkisstjórnin ekki að velja leið hafta eða þrengina
Kristján Þór sagði að ríkisstjórnin væri ekki að velja leið hafta eða þrenginga eða að berjast gegn neytendum eða verslun eða bændum.
„Það er langur vegur frá. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem lögð er til, ásamt beinum styrkjum til bænda, sem háttvirtur þingmaður tók meðal annars þátt í að afgreiða hér í síðustu viku. Þetta er því sambland ýmissa aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til í þágu íslensks landbúnaðar. Flest ríki í okkar nágrenni eru að styðja sína framleiðslu og við skorumst ekkert undan merkjum í þeim efnum sömuleiðis. Ég get ekki fullyrt með neinum hætti í dag hvaða áhrif þetta kann að hafa á breytingar á matarverði til neytenda. Við sjáum það hins vegar að verð á kjöti er að lækka á heimsmarkaði, hefur lækkað um 14 prósent ef ég man rétt á þessu ári. Með einhverjum hætti hlýtur það að skila sér til neytenda hér á landi því að innkaupsverðið á kjöti hlýtur að taka mið af því verði sem fæst á heimsmarkaði,“ sagði hann.
Þá vildi ráðherrann minna Þorgerðir Katrínu á úttekt sem stjórnvöld létu vinna á þeim breytingum sem kynnu að eiga sér stað við þá breytingu sem gerð var á úthlutun tollkvótanna og tók gildi á þessu ári.
„Við sömdum við ASÍ um að fylgjast með verðþróun á markaði og sú skýrsla hefur verið kynnt og yfirfarin. Sömuleiðis vil ég minna háttvirtan þingmann á þá umræðu sem átti sér stað þegar við vorum að breyta aðferð við úthlutun tollkvóta. Þá var kannski dálítið annað hljóð í strokknum hjá sumum þeirra sem eru að gagnrýna þær aðgerðir sem við erum að grípa til núna, fordæmalausar eins og við tönnlumst oft á. Málið er til meðferðar hjá nefndinni og ég vænti þess að við munum eiga góða og uppbyggjandi umræðu þegar það kemur þaðan,“ sagði hann.
„Vond leið og hún skekkir samkeppnisstöðu“
Þorgerður Katrín steig aftur í pontu og sagði að hún vissi ekki hvern verið væri að blekkja. „Af hverju er ekki hægt að svara þessu alveg skýrt og skilmerkilega? Við sjáum algjörlega og vitum af reynslunni að versta leiðin til að bæta hag bænda og neytenda er einmitt að fara þessa gömlu úreltu leið ríkisstjórnarinnar. Ekkert land í Evrópu fer núna nákvæmlega þessa leið, leið sem getur hugsanlega dýpkað kreppuna og aukið erfiðleika fólks og fyrirtækja í landinu.
Ríkisstjórnin velur þessa leið í staðinn fyrir að gera eins og aðrar þjóðir og setja fjármagn beint til bænda. Þessi leið, að hækka tollmúra, er vond leið. Hún skekkir samkeppnisstöðu, hún bætir ekki hag bænda og hún bjagar alla hvata sem við getum sett inn í landbúnaðinn.“
Hvatti hún ríkisstjórnina til að draga þetta mál til baka. „Viðreisn er reiðubúin til að setja aukið fjármagn beint í styrki til bænda en ekki að fara þessa leið. Þetta er vond leið og hún skekkir samkeppnisstöðu og ég skil ekki af hverju hæstvirtur ráðherra getur ekki einfaldlega komið hingað upp og sagt: Já, ég ætla að gera það. Ég ætla að standa með almenningi. Ég ætla að standa með neytendum og ég ætla að standa með bændum. En ríkisstjórnin ætlar að standa með milliliðunum,“ sagði hún.
Meiri „dómadagssýnin"
Kristján Þór svaraði í annað sinn og sagði að það væri meiri dómadagssýnin sem Þorgerður Katrín hefði á framtíð íslensks landbúnaðar og íslensks samfélags.
„Við skulum hafa það í huga að þetta er nú ekki erfiðara eða alvarlegra mál en það að þegar háttvirtur þingmaður gegndi stöðu landbúnaðarráðherra var engin atlaga gerð að því að breyta því kerfi sem við erum að setja aftur á núna. Þetta er ekki alvarlegra en það. Þessi ríkisstjórn breytti úthlutun tollkvóta frá því kerfi sem var við lýði þegar háttvirtur þingmaður gegndi því starfi sem ég gegni í dag. Meiri er breytingin ekki,“ sagði hann.
Þá sagðist hann ekki hafa heyrt allan þann tíma sem Þorgerður Katrín gegndi því embætti „nokkurt einasta ramakvein yfir því að sú aðferð við úthlutun tollkvóta gengi af neytendum meira og minna hálfdauðum. Það fór ekki fyrir þeirri umræðu þá,“ sagði ráðherrann en um leið mátti heyra Þorgerðir Katrínu kalla úr þingsal: „Hvar er frelsið? Hvar er frelsið?“
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sló í bjölluna og sagði: „Ætli það sé ekki rétt að þessum orðaskiptum sé lokið.“