Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, verður á meðal frambjóðenda í ráðgefandi skoðanakönnun meðal félagsmanna Samfylkingarinnar í Reykjavík um uppstillingu fyrir alþingiskosningarnar á næsta ári. Þetta staðfestir Kristrún í samtali við Kjarnann.
Sænska leiðin
Eins og Kjarninn hefur áður greint frá verður ekkert prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, heldur mun sérstök uppstillingarnefnd innan flokksins ganga frá framboðslistum í febrúar.
Til hliðsjónar mun nefndin hafa niðurstöður úr ráðgefandi skoðanakönnun sem fer fram núna á fimmtudaginn þar sem kosið verður um þá einstaklinga sem tilnefndir hafa verið af flokksfólki og hafa gefið leyfi fyrir því. Þessi aðferð hefur verið nefnd „sænska leiðin“ og hefur verið notuð hjá Sósíaldemókrataflokknum í Svíþjóð.
Vill nýta krafta sína til góðs
Aðspurð hvers vegna hún hafi tekið þessa ákvörðun segir Kristrún að hún skynji mjög mikla eftirspurn eftir heilbrigðri umræðu um efnahagsmál og að hún vilji nýta þekkingu sína til góðs með því að sækjast eftir einu af efstu sætunum í Reykjavík.
„Ég held að Samfylkingin hafi alla burði til að vera leiðandi afl í hreinskiptri umræðu um hvað felst í ábyrgri hagstjórn og ég tel að ég geti stutt vel við þá umræðu,“ bætir Kristrún við og segist vilja stíga inn til þess að koma umræðunni um efnahagsmál á hærra svið. Einnig segir hún að talsverð eftirspurn hafi verið eftir hennar kröftum og að hún geti ekki skorast undan því. Ef hún fái nægan stuðning sé ljóst að verkefnið framundan sé umfangsmikið og hún muni láta af störfum sem aðalhagfræðingur Kviku til að geta einbeitt sér að framboðsmálum og þeirri vinnu sem framundan er.