Þórhildur Ólöf Helgadóttir hefur verið ráðin í starf forstjóra Íslandspósts og hefur hún þegar tekið til starfa. Áður gegndi Þórhildur starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs fyrirtækisins en hún tók við þeirri stöðu í lok sumars 2019.
Þórhildur er fyrsta konan til að gegna stöðu forstjóra Póstsins, samkvæmt fréttatilkynningu þaðan. Hún tekur við af Birgi Jónssyni, sem sagði starfi sínu lausu nýlega.
„Ég er mjög ánægð með að fá þetta tækifæri og það mikla traust sem mér er sýnt. Pósturinn hefur gengið í gegnum mikið umbreytingarferli á síðustu misserum til þess að takast á við áskoranir í starfsemi félagsins. Við erum stolt af árangri okkur en höldum áfram að styrkja fyrirtækið og bæta þjónustuna,“ er haft eftir Þórhildur Ólöfu í fréttatilkynningu póstsins.
Auk starfa sinna fyrir Íslandspóst hefur Þórhildur verið fjármálastjóri 66°Norður, bílaumboðsins Heklu og Securitas. Þá hefur hún setið í stjórn Sjóvár-Almennra og átt sæti í stjórnum dótturfélaga þeirra fyrirtækja sem hún hefur starfað hjá. Þórhildur er með cand. oecon-próf frá Háskóla Íslands.
„Við fögnum því sannarlega að fá jafn öflugan stjórnanda og Þórhildi Ólöfu Helgadóttur til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða Póstsins á miklum breytingatímum og leiða þetta mikilvæga almannaþjónustufyrirtæki inn í framtíðina,“ er haft eftir Bjarni Jónssyni, formanni stjórnar Íslandspósts, í fréttatilkynningu fyrirtækisins.