Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefur ákveðið halda svokölluðum sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki í núlli næstu þrjá mánuði, en mun endurmeta stöðuna ársfjórðungslega. Þetta kemur fram í tilkynningu nefndarinnar sem birt var á vef Seðlabankans í morgun.
Sveiflujöfnunarauki Seðlabankans eru viðbótarkröfur á eigið fé fjármálafyrirtækja umfram lögbundnar eiginfjárkröfur til að sporna gegn miklum sveiflum í fjármálakerfinu. Ef mikil hætta er á þenslu getur Seðlabankinn hækkað aukann til að koma í veg fyrir of mikinn útlánavöxt, en ef hætta er á samdrætti getur bankinn lækkað aukann til að efla útlánagetu fjármálafyrirtækjanna.
Engin sveiflutengd kerfisáhætta nú
Samkvæmt tilkynningunni metur nefndin það svo að sveiflutengd kerfisáhætta hafi ekki aukist að neinu marki síðustu misseri. Lækkun sveiflujöfnunaraukans niður í núll, auk annarra aðgerða til að auka laust fé í umferð hafi hins vegar reynst vel þar sem þau hafi auðveldað fjármálafyrirtækjum að vinna með lántakendum í greiðsluerfiðleikum og samtímis viðhalda útlánagetu.
Lágir vextir skapa nýjar áskoranir
Þó bætir nefndin við að lágvaxtaumhverfið sem hefur myndast hér á landi skapi nýjar áskoranir á fjármálamarkaði.
„Sérstaklega á þetta við um lífeyrissjóði sem eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og kerfislega mikilvægir. Mikilvægt er því að við stefnumótun lífeyrissjóðakerfisins sem nú stendur fyrir dyrum verði tekið mið af áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika,“ stendur einnig í yfirlýsingu nefndarinnar.