Allt starfsfólk Arion banka mun geta fengið allt að tíu prósent af föstum árslaunum sínum á næsta ári í kaupauka þegar ársreikningur bankans fyrir árið 2021 liggur fyrir, ef þau markmið sem nýtt kaupaukakerfi tilgreinir nást.
Þeir stjórnendur og það starfsfólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bankans mun geta fengið allt að 25 prósent af föstum árslaunum í kaupaukagreiðslu, en þá í formi hlutabréfa í bankanum sem verða ekki laus til ráðstöfunar fyrr en að þremur árum liðnum.
Það fólk er með mun hærri laun en venjulegt starfsfólk bankans. Mánaðarlaun Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, voru til að mynda 4,7 milljónir króna á mánuði í fyrra.
Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason var ráðinn aðstoðarbankastjóri Arion banka í fyrra og hóf störf 5. september. Hann starfaði auk þess sem framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs frá 26. september. Laun Ásgeirs voru að meðaltali hærri en laun bankastjórans, en alls fékk hann greiddar 22,5 milljónir króna í fyrra fyrir tæplega fjögurra mánaða störf. Það þýðir að meðallaun hans á mánuði voru um 5,6 milljónir króna. Miðað við það myndi Ásgeir fá tæpar 17 milljónir króna í bónus ef markmiðum nýja kaupaukakerfisins yrði náð.
Stefán Pétursson, fjármálastjóri Arion banka, er líka með ágætis laun, eða um fjórar milljónir króna á mánuði. Slík laun gætu skilað honum um 12 milljónum króna í bónus vegna ársins 2021.
Þurfa að græða meira en hinir bankarnir
Þau markmið sem Arion banki þarf að ná til að kaupaaukakerfið fari í gang fela í sér að arðsemi bankans verðir að vera hærri en vegið meðaltal arðsemi helstu keppinauta bankans: Íslandsbanka, Landsbanka og Kviku. „Náist þetta markmið ekki, verður ekki greiddur út kaupauki. Heildarfjárhæðin sem veitt verður til kaupaukagreiðslna verður þó aldrei hærri en sem nemur arðsemi bankans umfram vegið meðaltal arðsemi samkeppnisaðila,“ segir í tilkynningu frá Arion banka til þeirra hlutabréfamarkaða sem bankinn er skráður á, en hann er tvískráður á Íslandi og í Svíþjóð.
Stjórn Arion banka hefur samþykkti hið breytta kaupaukakerfi og telur það í fullu samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um kaupaukagreiðslur starfsfólks fjármálafyrirtækja og starfskjarastefnu bankans sem samþykkt var á hluthafafundi. Áður hafði stjórn bankans samþykkt að engar kaupaukagreiðslur yrðu greiddar út vegna ársins 2020.
Með of mikið eigið fé
Þegar uppgjör þriðja ársfjórðungs Arion banka var birt í október síðastliðnum var haft eftir Benedikt í tilkynningu að bankinn væri í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt væri að ávaxta í takt við eigin markmið. Frá áramótum og til loka septembermánaðar jókst eiginfjárgrunnur samstæðunnar um tæpa 30 milljarða. Eiginfjárhlutfall hans var 27,6 prósent í lok september 2020.
Samkvæmt uppgjörinu nam hagnaður bankans tæpum fjórum milljörðum króna á nýliðnum ársfjórðungi, sem var fimm sinnum meiri en afkoma bankans á sama tímabili í fyrra. Tekjur uxu og kostnaður lækkaði, en samkvæmt bankanum spiluðu skipulagsbreytingar sem framkvæmdar voru í fyrra miklu máli þar.
Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 6,2 prósent milli ára, en bankinn hefur einnig aukið útlán til heimila í kjölfar mikilla vaxtalækkana Seðlabankans í vor. Lánabók bankans hækkaði um sjö prósent frá áramótum, auk þess sem bankinn jók vaxtamun sinn.