Bankasýsla ríkisins lagði í dag á ný fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýslan lagði hið sama til í marsmánuði, en féll frá tillögu sinni skömmu síðar vegna skjótra sviptinga í efnahagsmálum vegna heimsfaraldursins.
Nú, öfugt við í mars, felur tillagan ekki í sér að hluti eignarhluta ríkisins verði seldur hæstbjóðanda í beinni sölu, heldur er einungis lagt til af hálfu bankasýslunar að stefna að skráningu eignarhluta á verðbréfamarkað hérlendis í kjölfar almenns útboðs.
Bankasýslan segir í minnisblaði til ráðherra að ekki sé talið rétt að ákveða á þessum tímapunkti hversu stóran hlut í bankanum eigi að bjóða til sölu í útboðinu, „þar sem áætluð eftirspurn fjárfesta eftir hlutum í Íslandsbanka, bæði varðandi fjölda hluta og verð á hlut, muni einungis liggja fyrir eftir fjárfestakynningar undir lok söluferlis.“
Lagt er til að söluferli bankans hefjist í janúar og gert er ráð fyrir því að því gæti lokið í maí.
Staða markaða betri en vonir stóðu til
Sem áður segir lagði Bankasýslan fram tillögu um sölu Íslandsbanka í mars, nánar tiltekið þann 4. mars. Tillagan var svo afturkölluð 16. mars vegna breyttra aðstæðna og mikillar óvissu á mörkuðum vegna heimsfaraldursins.
Í rökstuðningi sínum fyrir því að leggja tillögu um sölu á bankanum fram nú segir Bankasýslan að þróun á fjármálamörkuðum og afkomu Íslandsbanka hafi reynst mun betri en vonir stóðu til um miðjan mars.
Frá 16. mars til 16. desember hafi hlutabréf í íslenskum félögum hækkað um helming (50,0 prósent) og hlutabréf í evrópskum bönkum (STOXX Euro 600 banka vísitalan) hækkað um tæpan þriðjung (32,4 prósent). Einnig hafi á þessu tímabili átt sér stað farsæl hlutabréfaútboð innanlands með mikilli þátttöku almennings.
Þá segir Bankasýslan að afkoma Íslandsbanka það sem af er árinu hafi verið betri heldur en álykta megi af sviðsmyndaspá Seðlabanka Íslands frá því í byrjun júlí.
Formenn stjórnarflokkanna allir sammála um bankasölu áður en veiran fór að grassera
Sala á einhverjum hluta ríkisins í Íslandsbanka var mikið til umræðu áður en kórónuveiran fór að trufla allt venjulegt líf, stjórnmálin og fjármálamarkaði. Kjarninn sagði frá því í febrúar að allir leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja hefðu lýst sig tilbúna til þess að hefja söluferli á öðrum ríkisbankanum í nánustu framtíð.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í byrjun febrúar að sala á 25 til 50 prósent hlut í Íslandsbanka á næstu árum myndi opna á stór tækifæri til fjárfestinga.
„Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um gjaldtöku til að fjármagna samgöngubætur og það er skiljanlegt, vegna þess að við þurfum að hraða framkvæmdum, en nærtækari leið er að losa um þessa verðmætu eign og afmarka gjaldtöku í framtíðinni við stærri framkvæmdir á borð við Sundabraut, Hvalfjarðargöng og aðra gangagerð. Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efnum, efnahagslífið er tilbúið fyrir opinberar framkvæmdir,“ skrifaði Bjarni.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokks og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði sömuleiðis við Fréttablaðið að hann teldi skynsamlegt setja Íslandsbanka í söluferli og Katrín Jakobsdóttir staðfesti einnig við Kjarnann að sala á hlut í Íslandsbanka væri skynsamleg, ef hægt yrði að nota ávinninginn af sölunni í innviðafjárfestingar.