Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritari og fyrrverandi ráðherra, segir í grein í nýútkomnu blaði sjálfstæðismanna í Kópavogi að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hafi boðið upp á „flýtimeðferð“ sem sé „óboðleg“, með frumvarpi sínu um hálendisþjóðgarð.
„[L]ögfesting frumvarps um hálendisþjóðgarð getur aldrei orðið að veruleika á þessum vetri,“ skrifar þingmaðurinn í Voga, árlegt rit sjálfstæðismanna í Kópavogi.
Í grein sinni segir Jón að umhverfisráðherra hafi árið 2018 skipað vinnuhóp til að fjalla um kosti hálendisþjóðgarðs, fyrst og fremst út frá náttúruverndarsjónarmiðum.
„Ekkert mat var lagt á aðra hagsmuni sem þó liggur í augum uppi að eru mjög miklir. Hverju erum við að fórna með því að loka á alla aðra mögulega nýtingu á hálendinu?“ skrifar þingmaðurinn.
Jón skrifar að Íslendingar hafi mikil tækifæri til orkuvinnslu umfram aðrar þjóðir og segir m.a. að Ísland eigi að nýta þessi tækifæri til að „verða fremst á meðal þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis“ og „leggja grunn að nýsköpun í atvinnulífi á grundvelli grænnar atvinnustarfsemi eins og t.d. í gagnaveraiðnaði.“
„En grunnur að slíkri uppbyggingu byggir á nýtingu hagkvæmustu virkjanakosta okkar, en ekki þeirra óhagkvæmari,“ skrifar Jón og segir ennfremur að „[v]ið getum ekki á þessum tímum tekið ákvarðanir sem binda svo mjög hendur komandi kynslóða.“
Jón segir að umhverfisráðherra sé tíðrætt um að stærsti þjóðgarður í Evrópu myndi skapa mikil tækifæri til kynningar á landi og þjóð og myndi stuðla að mjög jákvæðri ímynd fyrir ferðaþjónustu. „Höfum við ekki þegar náð þeim áfanga?“ spyr Jón og spyr svo á ný hvort ímynd okkar sé ekki mjög jákvæð „einmitt t.d. vegna náttúrunnar og ábyrgrar nýtingar okkar á orkuauðlindum?“
Óttast að þjóðgarðurinn „verði eins og ríki í ríkinu“
„Ég tek undir með þeim sem óttast að hálendisþjóðgarður verði eins og ríki í ríkinu þar sem lýðræði sé meira og minna óvirkt, ákvörðunarvald verði hjá þröngum hópi fólks sem margt hefur ekkert lýðræðislegt umboð sér að baki,“ skrifar Jón í greininni, sem hlýtur að teljast eitt harðasta útspil stjórnarþingmanns gegn frumvarpi umhverfisráðherra til þessa.
Guðmundur Ingi umhverfisráðherra ræddi frumvarpið í Kastljósi í síðustu viku og sagðist þá ekki hafa áhyggjur af því frumvarp sitt, sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn, dagaði uppi hjá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins á þessum þingvetri.
„Ég hef nú áður fengið fyrirvara á mál sem ég hef farið með í þingið og við höfum leyst úr því. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu,“ sagði Guðmundur Ingi.