Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka og mun nú útbúa greinargerð sem lögð verður fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Auk þess mun Bjarni óska eftir umsögn um málið frá Seðlabanka Íslands eins og lög mæla fyrir um.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Íslandsbanki er í dag alfarið í eigu íslenska ríkisins, en stefnt er að því að selja hlutina í almennu útboði og skrá öll hlutabréf í bankanum í kjölfarið á verðbréfamarkað.
Þar segir að helstu markmiðin með sölu ríkisins á hlutum þess í bankanum séu eftirfarandi:
- að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
- að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
- að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
- að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
- að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst
- að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.
Í tilkynningu segir enn fremur að rétt þyki að undirbúa söluferli á þessum tímapunkti í ljósi góðrar stöðu bankans og hagfelldra aðstæðna á markaði. Eigið fé Íslandsbanka er nú metið á um 182 milljarða króna.
Ekki ljóst hve stór hlutur verður seldur
Eins og Kjarninn sagði frá í gær er lagt til í minnisblaði Bankasýslu ríkisins er tekin verði ákvörðun um stærð hlutarins sem boðinn verður til sölu á síðari stigum söluferlis, með hliðsjón af áætlaðri eftirspurn. Stefnt er að því að útboð geti farið fram á vormánuðum.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að málið hafi fengið ítarlega umfjöllun í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og verið rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Áfram gert ráð fyrir að ríkið verði leiðandi í Landsbankanum
Þar segir einnig að lengi hafi verið talið mikilvægt að draga úr áhættu ríkisins í rekstri fjármálafyrirtækja með því að minnka eignarhald þess í bankakerfinu, sem í dag sé það umfangsmesta í Evrópu.
„Með því að draga úr eignarhaldi ríkisins er jafnframt stuðlað að aukinni samkeppni og áframhaldandi áhersla lögð á traust, heilbrigt og hagkvæmt bankakerfi fyrir samfélagið. Áfram er gert ráð fyrir að ríkið verði leiðandi fjárfestir í Landsbankanum til framtíðar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Gengi hlutabréfa í Arion banka gefi góð fyrirheit
Þar segir enn fremur að þróun á fjármálamörkuðum og afkomu Íslandsbanka undanfarna mánuði styðji við tillögu um að hefja sölu á hlut ríkisins nú.
Haft er eftir Bjarna Benediktssyni að það gefi „óneitanlega góð fyrirheit“ að horfa til gengis bréfa í Arion banka, sem hafi hækkað umfram innlenda hlutabréfamarkaðinn á árinu og séu um þessar mundir með því hæsta sem verið hefur frá skráningu bankans á markað sumarið 2018.
Tímasetningin er einnig sögð hagfelld með tilliti til þess að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar. Við það bætist umtalsverður samdráttur í skatttekjum, en gert er ráð fyrir um 320 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs árið 2021.
„Með sölunni mildum við höggið af kórónukreppunni umtalsvert auk þess sem hún auðveldar okkur að fjármagna áframhaldandi aðgerðir fyrir fólk og fyrirtæki“ er haft eftir Bjarna í tilkynningu ráðuneytisins.