„Telji Reykjavíkurborg að hagsmunir af uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Gufunesi vegi þyngra en af starfsemi móttöku- og flokkunarstöðvarinnar í Gufunesi þarf sú afstaða að koma fram með skýrum hætti sem fyrst svo hægt verði að grípa til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð,“ segir í umsögn Sorpu bs. um tillögur að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur fram til ársins 2040.
Umsögn Sorpu, líkt og aðrar umsagnir um breytingar á aðalskipulagi borgarinnar, var kynnt kjörnum fulltrúum á fundi skipulags- og samgönguráðs borgarinnar á dögunum.
Þar segir að fyrirtækið telji að sú uppbygging sem fyrirhuguð er í Gufunesi samræmist illa starfsemi móttöku- og flokkunarstöðvar Sorpu í hverfinu. Þrátt fyrir að borgin leggi upp með að syðsti hluti svæðisins verði áfram iðnaðarsvæði telja stjórnendur Sorpu líkur á því að „framtíðaríbúar svæðisins muni ekki láta sér lynda rekstur móttöku- og flokkunarstöðvar fyrir sorp í sínu næsta nágrenni.“
Sorpa segir að starfseminni fylgi þungaumferð, þrátt fyrir að lyktarmengun sé óveruleg. Fyrirtækið kallar eftir því að Reykjavíkurborg, sem á 60,5 prósent hlut í byggðasamlaginu, geri frekari grein fyrir framtíðarsýn sinni á starfsemi Sorpu í Gufunesi.
Telja þrengt að starfseminni á teikningum borgarinnar
Í umsögn Sorpu er birt teiknuð mynd af framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á Gufunes, sem tekin úr glærusýningu borgaryfirvalda um Græna planið svokallaða. Stjórnendur Sorpu telja móttöku- og flokkunarstöðinni sniðinn þröngur stakkur, af teikningunni að dæma.
„Verði þessi sýn að veruleika yrði þannig erfitt að breyta móttöku- og flokkunarstöðinni eða stækka ef þörf krefði,“ segir Sorpa. Fram kemur að það gæti kallað á „viðeigandi ráðstafanir“ af hálfu Sorpu.
Þessar viðeigandi ráðstafanir gætu að óbreyttu þýtt þörf á að byggja nýja móttöku- og flokkunarstöð Sorpu fjarri Gufunesi, samkvæmt umsögn fyrirtækisins.
Sorpa minnir á það í umsögn sinni að ef það fari svo að krafa verði gerð um að móttöku- og flokkunarstöðin víki úr Gufunesi á gildistíma skipulagsins þurfi slík ákvörðun og framtíðarstaðsetning að liggja fyrir að minnsta kosti fimm árum áður en stöðinni yrði gert að loka í Gufunesi, til að tryggja að ekki verði rof í þjónustu.