Fyrirhugaðar breytingar á nýtingu svæðis í Úlfarsárdal, sem í aðalskipulagi Reykjavíkur heitir M22, leggjast illa í Knattspyrnufélagið Fram og fleiri umsagnaraðila á svæðinu, en borgin stefnir að því að ekki verði lengur heimilt að byggja íbúðir á umræddum reit.
Í umsögn aðalstjórnar Fram segir að þetta sé „enn einn forsendubresturinn á því samkomulagi sem Fram gerði við Reykjavíkurborg um flutning félagins í Úlfarsárdal,“ en þangað hefur Fram verið að flytja starfsemi sína í áföngum á undanförnum árum, úr Safamýri þar sem sögulegar rætur félagsins liggja.
Í svari Reykjavíkurborgar við umsögn Framara segir að íbúðaheimildir á þessum reit hafi séu takmarkaðar í núverandi skipulagi og því er haldið til haga að hverfið hafi ýmsa stækkunarmöguleika, þó ekki séu byggðar íbúðir á svæði M22, sem á einungis að verða undir atvinnustarfsemi, samkvæmt tillögu borgaryfirvalda.
Reykjavíkurborg segir ennfremur að eftir samþykkt aðalskipulags Reykjavíkur árið 2014 hafi legið fyrir að borgarhlutinn yrði með um 10 þúsund íbúum eða svipað og sé í Árbænum í dag, í baklandi Fylkis. Í umsögn Fram er minnst á að þegar uppbygging í Úlfarsárdalnum hafi verið kynnt upphaflega hafi lóðir á svæði M22 verið „auglýstar sem glæsilegustu lóðir borgarinnar og seinustu suðurhlíðar Reykjavíkur.“
Þróunin hafi verið í andstöðu við það sem Fram gekkst undir
„Á Skyggnisbraut var gert ráð fyrir verslunarrými og átti þjónustustigið að vera hátt, með yfir 20 þúsund íbúa í hverfinu. Skipulagsþróun hverfisins hefur í raun verið í andstæðu við upphaflegt skipulag þar sem plönum fyrir hverfið var fljótlega breytt í 10 þúsund íbúa hverfi og síðan niður í um þrjú þúsund. Í dag (26.11.2020) eru samtals 2.628 íbúar í Úlfarsárdal og Reynisvatnsás,“ segja Framarar, greinilega óhressir með stöðu mála.
Fram segir þróunina vera í algjörri andstöðu við það sem Fram hafi gengist undir þegar samið var um flutning félagsins í Úlfarsársdal og Grafarholt árið 2008. Aðalstjórnin minnir á að það þurfi að hafa samfélag í kringum sig til að reka íþróttafélag, samfélag „sem er nægjanlega stórt til að félagið geti endurnýjað sig og viðhaldið þeirri starfsemi sem félaginu er uppálagt að halda úti samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg.“
„Til að það sé mögulegt þarf að lágmarki 15-20 þúsund manna byggð í Grafarholti og Úlfarsárdal. Eins er mikilvægt að þeir glæsilegu innviðir sem núna eru í byggingu fyrir Fram í Úlfarsárdal, ásamt menningarmiðstöð og sundlaug nýtist sem flestum. Það að hafa blómlegt og fjölbreytt íþróttastarf í hverfinu á eftir að gera Úlfarsárdalinn að einu glæsilegasta hverfi landsins en til þess að það verði verður Fram að hafa aðgang að stóru hverfi sem hefur fjölbreytta möguleika fyrir íbúa þess,“ segir í umsögn Fram.
Aðalstjórn Fram segir mikla ásókn í sérbýli í hverfinu, sem sjáist vel á góðri sölu. „Ef þetta fallega svæði er tekið út af borðinu þá verður væntanlega ekkert skipulagt svæði í Reykjavík fyrir sérbýli á næstunni fyrir utan óljósar hugmyndir um svæðið austan við núverandi byggð í Úlfarsárdal,“ segir í umsögninni.
Félagið segist ekki leggjast gegn uppbyggingu á atvinnuhúsnæði á svæðinu en leggst algjörlega gegn því að dregið verði úr framboði á íbúðarhúsnæði á þessu svæði, M22.
Einnig leggjast Framarar gegn því að „mjög gróf starfsemi fari inn á þetta dýrmæta byggingarland“ og skemmi ásýnd svæðisinss og upplifun íbúa hverfisins.
Í svari við svipuðum athugasemdum segja borgaryfirvöld að skoðað verði í ljósi athugasemda og mótmæla „hvort rétt sé að þrengja skilgreiningu svæðis varðandi atvinnustarfsemi og setja ríkari kröfur um umhverfisgæði.“ Þetta verði tekið til skoðunar við mótun endanlegrar tillögu.