Heyrist hvorki hósti né stuna frá Kristjáni Þór

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og aðstoðarmenn hans þegja þunnu hljóði og engin svör berast vegna „læks“ við færslu um Samherja og RÚV.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Auglýsing

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið ná í sig vegna fréttaflutnings af „læki“ sem hann setti við færslu á Facebook, sem gagnrýndi RÚV harðlega fyrir umfjöllun um Samherjamálið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Kjarnans til að nálgast svör ráðherra.

Kjarninn sendi fyrst fyrirspurn til ráðherra og aðstoðarmanna hans, þeirra Gunnars Atla Gunnarssonar og Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur, þann 14. desember í gegnum tölvupóst og ítrekaði þá fyrirspurn í gegnum sama samskiptamáta, sem og í gegnum sms, símhringingar og Facebook. Óskir um svör og samtöl hafa verið hunsaðar.

Ráðherrann líkaði við, eða setti „læk“ við, færslu sem birtist þann 12. desember þar sem höfundur færslunnar sagðist líta svo á að RÚV færi offari í fréttaflutningi af Samherja og félli „í sömu gryfju og Seðlabankinn“.

Facebook-færsla um RÚV og Samherja Mynd: Skjáskot/Facebook

Áralöng tengsl við Samherja

Kristján Þór á langa sögu með Samherja og þegar hann tók við sem ráð­herra sjáv­ar­út­vegs­mála árið 2017 kom fram gagn­rýni vegna tengsla hans við fyrirtækið og Þor­stein Má Bald­vins­son, for­stjóra og einn aðal­eig­anda þess. Krist­ján Þór hafði setið í stjórn Sam­herja, þar af í eitt ár sem stjórn­ar­for­mað­ur, á árunum 1996 til 2000. 

Hann fór auk þess tví­vegis sem háseti á mak­ríl­veiðar á vegum Sam­herja, ann­ars vegar sum­arið 2010 og hins vegar sum­arið 2012, og þáði laun fyr­ir. Sam­herji styrkti einnig fram­boð Krist­jáns Þórs í próf­kjöri innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins árin 2007 og 2013.

Auglýsing

„Komi upp mál sem snerta Sam­herja mun ég að sjálf­sögðu meta hæfi mitt“

Ráðherrann birti stöðu­upp­færslu á Face­book þann 12. des­em­ber 2017 þar sem hann sagði að sér væri ljúft og skylt að upp­lýsa að hann og Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, hefðu þekkst síðan þeir voru ungir menn. Þar sagði einnig að hann teldi sig „hæfan til þess að taka ákvarð­anir um mál­efni sem snerta sjáv­ar­út­veg­inn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Sam­herja mun ég að sjálf­sögðu meta hæfi mitt í ljósi fram­an­greinds líkt og allir stjórn­mála­menn þurfa að gera þegar fjöl­skyld­u-, vina- og kunn­ingja­tengsl gætu haft áhrif á afstöðu til ein­stakra mála.“

Eftir umfjöllun Kveik­­­s, Stund­arinnar, Wiki­leaks og Al Jazeera í nóvember 2019 um starfsemi Samherja í Namibíu var enn á ný fjallað um tengsl ráðherrans við fyrirtækið og var hæfi hans til umræðu. Þegar umfjöllunin leit dagsins ljós sagðist ráðherrann ekki hafa haft nein afskipti af útgerðarfyrirtækinu Samherja síðan hann var í stjórn fyrirtækisins.

Sögðu að Kristján væri „þeirra maður“

Fram kom í fyrrnefndri umfjöllun að Samherjamenn hefðu í samræðum við namibíska áhrifamenn sagt að Kristján væri „þeirra maður“. Kristján Þór sagði við RÚV að Samherjamenn yrðu sjálfri að svara fyrir hvað þeir hefðu átt við með þeim ummælum.

Jafnframt kom fram í umfjöllun fjölmiðla að Kristján Þór hefði hringt í Þorstein Má og í viðtali á RÚV sagðist hann bara hafa verið að „spyrja hvernig honum liði einfaldlega“.

Frá því var síðan greint í des­em­ber sama ár að Krist­ján Þór hefði ákveðið á grund­velli stjórn­sýslu­laga að víkja sæti við með­­­­­ferð og töku ákvarð­ana í fjórum stjórn­­­­­sýslu­kærum tengdum Sam­herja. Það gerði hann, að eigin sögn, vegna þess að það skipti ekki einungis máli að sá sem tæki ákvörð­un í mál­unum líti á sitt hæfi heldur líka hvernig hún myndi horfa við borg­­ur­un­­um.

Samherji kærði frétta- og dagskrárgerðarmenn til siðanefndar RÚV

Samherjamenn hafa ekki legið á skoðunum sínum varðandi fréttaflutning RÚV eða umfjöllun miðilsins um málefni fyrirtækisins. Í byrjun september síðastliðins var greint frá því að lögmaður Samherja hefði lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna „þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum“.

Kæran til siða­nefndar byggir á reglu í siða­reglum Rík­is­út­varps­ins sem er svohljóð­andi: „Starfs­fólk, sem sinnir umfjöllun um frétt­ir, frétta­tengt efni og dag­skrár­gerð tekur ekki opin­ber­lega afstöðu í umræðu um póli­tísk mál­efni eða umdeild mál í þjóð­fé­lags­um­ræð­unni, þ. á m. á sam­fé­lags­miðl­u­m.“

Í kærunni eru athugasemdir gerðar við samfélagsmiðlahegðun frétta- og dagskrárgerðarmannanna, til dæmis þegar þeir deildu eða „líkuðu“ við efni og sagði í kærunni að þannig væri tekið „undir þær skoðanir sem þar er lýst“.

Fréttamenn Kveiks „lýst vel­þóknun sinni“ á samfélagsmiðlum

Fleiri innan vébanda Samherja hafa horft til samfélagsmiðlanotkunar fréttamanna RÚV en hinn forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannsson, ritaði grein í Kjarnann í september síðastliðnum þar sem hann bryddaði upp á því að honum hefði verið bent á að frétta­menn Kveiks hefðu deilt frétt Kjarnans með fyrirsögninni „Samherji leiðréttir „ásakanir“ Kveiks sem aldrei voru settar fram“ á sam­fé­lags­miðlum og þannig lýst vel­þóknun sinni á efni henn­ar.

Í frétt Kjarnans kom fram að Samherji hefði birt nýtt myndband á YouTube, þar sem fyrirtækið hafnaði þremur ásökunum sem það sagði hafa verið settar fram af hálfu Kveiks í nóvember í fyrra. Kveikur hefði þó ekkert fullyrt af því sem Samherji svaraði fyrir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent