Íslensku viðskiptabankarnir lánuðu heimilum landsins 273,3 milljarða króna umfram uppgreiðslur og umframgreiðslur gegn veði í fasteign á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Ef ásókn í húsnæðislán þeirra verður svipuð í desember og hún var síðustu mánuði á undan munu nettó húsnæðisútlán bankanna fara yfir 300 milljarða króna á árinu 2020.
Þetta má lesa út úr hagtölum um bankakerfið sem Seðlabanki Í Íslands birti í vikunni.
Það er athyglisverð upphæð í ljósi þess að síðustu þrjú árin á undan: 2017, 2018 og 2019 námu nettó húsnæðislán viðskiptabankanna samtals 329 milljörðum króna.
Því stefnir í að bankarnir láni næstum sömu upphæð í ný húsnæðislán að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum á árinu 2020 og þeir lánuðu þrjú árin þar á undan.
Færa sig þangað sem bestu kjörin eru
Meginástæða þessa er sú stýrivextir Seðlabanka Íslands voru lækkaðir niður í eitt prósent, og svo niður í 0,75 prósent þegar leið á árinu. Það hefur leitt til þess að óverðtryggðir húsnæðislánavextir þriggja stærstu bankanna hafa hríðlækkað.
Í upphafi árs í fyrra voru breytilegir óverðtryggðir vextir bankanna á bilinu sex til 6,6 prósent. Þeir hafa því helmingast.
Við þessu hafa íslenskir lántakendur brugðist með því að færa lánin sín þangað sem bestu kjörin eru.
Flótti marga mánuði í röð
Frá því í júní 2020 hefur átt sér stað flótti húsnæðislántakenda frá lífeyrissjóðum landsins og til viðskiptabankanna. Hann byrjaði hægt. Í fyrsta mánuði þessa tímabils drógust útlán umfram uppgreiðslur saman um nokkur hundruð milljónir króna. Í júlí var samdrátturinn vel á þriðja milljarð króna. Í ágúst var hann tæplega fimm milljarðar króna og í september um 3,5 milljarðar króna. Samanlagt greiddu sjóðsfélagar upp lán fyrir um 13,7 milljarða króna umfram ný útlán á þessum fjórum mánuðum.
Október sló svo öll met þegar horft er til samdráttar í húsnæðislánum til sjóðsfélaga. Alls drógust útlán sjóðanna saman um 8.955 milljónir króna í októbermánuði. Það er mesta lækkun sem orðið hefur í einum mánuði á útlánasafni lífeyrissjóða landsins frá því að Seðlabankinn fór að halda utan um, og birta opinberlega, þær tölur í byrjun árs 2009.
Fyrir júnímánuð 2020 hafði það aldrei gerst, samkvæmt þeim upplýsingum sem Seðlabankinn birtir, að uppgreiðslur lífeyrissjóðslána námu hærri fjárhæð en nýjar lántökur.
Nú hefur það gerst fimm mánuði í röð. Fastlega má búast við því að nóvember hafi verið sá sjötti.