Miðflokkurinn yrði líkast til minnst flokkurinn sem næði manni inn á Alþingi ef kosið yrði í dag, samkvæmt nýrri könnun Zenter fyrir Fréttablaðið. Flokkurinn mælist nú með 6,7 prósent fylgi sem er það minnsta sem hann hefur haft í könnunum fyrirtækisins frá því að Klausturmálið svokallaða, þar sem þingmenn hans voru í aðalhlutverkum, kom upp í lok árs 2018. Þá mældist flokkurinn með 4,3 prósent fylgi.
Enn fremur mælist fylgi Miðflokksins 4,2 prósentustigum undir því sem flokkurinn fékk í síðustu þingkosningum, haustið 2017. Hann hefur því tapað rúmlega 38 prósent af fylgi sínu það sem af er kjörtímabili.
Fjórðungur af fylginu farið
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast allir undir kjörfylgi í könnun Zenter. Sjálfstæðisflokkurinn yrði áfram stærsti flokkur landsins ef kosið yrði nú en stuðningur við hann mælist 22,9 prósent. Það 2,4 prósentustigi minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum og versta niðurstaða flokksins frá upphafi.
Framsóknarflokkurinn yrði næst minnstur þeirra sjö flokka sem næðu örugglega inn á þing samkvæmt könnuninni. Hann mælist með 7,3 prósent fylgi, 3,4 prósentustigum minna en haustið 2017, sem yrði versta kosning flokksins frá upphafi.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist 40,4 prósent. Þeir fengu 52,9 prósent í síðustu kosningum og hafa því tapað tæpum fjórðungi fylgi síns.
Frjálslyndu andstöðuflokkarnir stærri en stjórnin
Þeir þrír flokkar sem næðu inn á þing samkvæmt könnuninni, og eru ónefndir hér, eru Píratar, Samfylking og Viðreisn. Samtals mælist fylgi þeirra í könnun Zenter 42,8 prósent. Þessir þrír flokkar fengu 28 prósent atkvæða í þingkosningunum 2017 og því hafa þeir bætt við sig 14,8 prósentustigum, 53 prósent fylgi, á meðan að allir aðrir flokkar sem sitja á þingi hafa tapað fylgi það sem af er kjörtímabili.
Mest hafa Píratar bætt við sig. Þeir mælast næst stærsti flokkur landsins í könnun Zenter með 17 prósent fylgi. Það er 7,8 prósentustigum meira en flokkurinn fékk haustið 2017.
Samfylkingin mælist með 15,6 prósent fylgi og myndi samkvæmt þessu bæta við sig 3,5 prósentustigum. Viðreisn myndi fá svipaða uppskeru og flokkurinn fékk í kosningunum 2016 ef kosið yrði nú, en umtalsvert betri en það sem kom upp úr kjörkössunum 2017 þegar 6,7 prósent landsmanna kusu flokkinn. Í dag segjast 10,2 prósent styðja hann.
Flokkur fólksins við það að komast inn
Flokkur fólksins er sá flokkur sem er þegar með þingmenn kjörna sem er líklegastur til að detta af þingi samkvæmt könnuninni. Fylgi hans mælist 4,7 prósent og ef það yrði niðurstaðan alls staðar á landinu myndi flokkurinn líklegast ekki ná inn. Það verður þó að hafa í huga, sérstaklega ef tekið er tillit til eðlilegra skekkjumarka, að Flokkur fólksins er fjarri því að vera úr leik miðað við þessa fylgiskönnun og lítið þyrfti að gerast til að hann næði inn. Flokkur fólksins fékk 6,9 prósent atkvæða í síðustu kosningum og er því að mælast 2,2 prósentustigum undir kjörfylgi í könnun Zenter.
Níundi flokkurinn sem er mældur í könnun Zenter er Sósíalistaflokkur Íslands. Hann mælist með 3,3 prósent fylgi og er nokkuð frá því að ná inn manni. Vert er þó að taka fram að flokkurinn hefur ekki kynnt lista sína vegna komandi kosninga, en hann hefur aldrei áður tekið þátt í þingkosningum. Kjósendur hafa því fá andlit til að tengja við flokkinn enn sem komið er.
Könnunin var send á könnunarhóp Zenter sem fékk að svara henni frá 11. til 19. desember 2020. Í þeim hópi voru 2.500 einstaklingar átján ára og eldri og svör voru vegin eftir kyni, aldri og búsetu. Svarhlutfall var 52,8 prósent.