Greint var frá því í dagbók lögreglunnar í morgun að ónefndur ráðherra í ríkisstjórn Íslands hefði verið á meðal 40 til 50 gesta sem voru í samkvæmi í sal í útleigu í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Upplýst hefur verið að sá salur var listasafnið í Ásmundarsal. Töluverð ölvun var í samkvæminu og enginn þeirra sem þar voru staddir voru með grímur fyrir andliti.
Lögreglan leysti upp samkvæmið vegna þess að það braut í bága við sóttvarnareglur og greindi frá því í morgun að á meðal gesta hefði verið ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, setti svo stöðuuppfærslu á Facebook klukkan 10:39 í morgun þar sem hann staðfesti að hann hefði verið umræddur ráðherra. Þar sagði meðal annars: „Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.“
Viðbrögð við athæfi Bjarna hafa flest verið á einn veg, það hefur verið fordæmt en þó af mismikilli hörku. Hér eru þau helstu:
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á RÚV:
„Það er bara mjög slæmt þegar forystumenn þjóðarinnar fara ekki eftir þessum reglum[...]Ef það er rétt sem þar kemur fram þá er þetta klárlega brot á sóttvarnarreglum og mér finnst það miður að þetta hafi gerst.“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á Vísi:
„Við vitum það að sóttvararáðstafanir eru til þess að fara eftir þeim. Það er mjög mikilvægt að við gerum það öll, og alveg jafn mikilvægt að við gerum það í dag eins og aðra daga sem við höfum verið að glíma við Covid.“
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum á vef Fréttablaðsins:
„Þetta eru fyrst og fremst bara vonbrigði eins og í hvert sinn sem við fáum svona fréttir[...]Fólk veit alveg hvað það er sem við erum að reyna að gera og af hverju. En ég er bara mjög vonsvikinn og leiður.“
Auglýsing
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á RÚV:
„Mín skoðun er sú að hann hlýtur að íhuga það alvarlega að segja af sér. Ef hann er ekki að gera það þá hljóta samstarfsflokkarnir tveir að pressa á hann vegna þess að ég trúi varla að hann hafi stuðning allra annarra ráðherra eða meirihluta Alþingis.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, á mbl.is:
„Þetta er óforsvaranleg hegðun sem ráðherra í ríkisstjórn getur ekki reynt að afsaka með jafnaumkunarverðum hætti og hann gerir í þessum pistli sínum[...]Þetta er einkennandi fyrir ríkisstjórn sem segir eitt og gerir annað.“
Aðspurð sagði hún uppákomuna vera „afsagnarsök“.
Þórhildur Sunna í stöðuuppfærslu á Facebook:
„Bjarni sagði ekkert í gær um þetta “óhapp” sitt. Hann lét ekki ná í sig í dag til þess að viðurkenna þessi “mistök” sín. Eitthvað finnst mér holur hljómur í þessu alveg óvart narratívi hjá honum. Og mikið finnlogi einlogist mér sorglegt að heyra ekki múkk frá samráðherrum hans. Sem láta þessa aumu afsökunarbeiðni vera einu skilaboð ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar á aðfangadag.
Ætli þau séu ekki bara að læra af þessu? Ætli við fáum að heyra einhverja viðlíka snilld og um daginn þegar BB varð uppvís að því að vera ekki í sama samfélagi og við hin? Eitthvað eins og þetta:
„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.““
Jón Magnús Jóhannesson, deildarlæknir á Landsspítalanum sem hefur meðal annars skrifað um COVID-19 inn á vísindavef Háskóla Íslands, á Facebook:
„Ég vil vera afdráttarlaus, skýr og ótvíræður hérna.
1. Þessi samkoma var fáránlegt, skammarlegt brot á sóttvarnareglum.
2. Þessi samkoma gæti fræðilega hleypt af stað ofurdreifiviðburði COVID-19 hérlendis. Það gæti hreinlega leitt til dauðsfalla. Ég er ekki að ýkja hérna.
3. Skorturinn á sóttvörnum í þessari samkomu, sem var nú þegar að brjóta samkomutakmarkanir, lýsir fáránlegum dómgreindarbresti og virðingarleysi gagnvart alþjóð.
4. Þeir sem skipulögðu þessa samkomu ættu einfaldlega að skammast sín.
5. Téður ráðherra ætti að segja af sér - tafarlaust. Fyrir þátttakendur þessa teitis er þetta skömm en fyrir ráðherra í ríkisstjórn Íslands er þetta algjör forsendubrestur. Það er erfitt að lýsa því nákvæmlega hversu mikið dómgreindar- og virðingarleysi er hér á ferðinni.
6. Ég vil biðla til allra sem hafa skoðun á þessu máli að deila henni.“