Búist er við bjartari tímum fram undan í íslensku efnahagslífi, en mikilvægt er að fjármálakerfið og hið opinbera bregðist rétt við og styðji við þau fyrirtæki sem verða arðvænleg að farsóttinni lokinni. Þessi fyrirtæki gætu meðal annars verið í ferðaþjónustunni, en mögulegt er að Ísland verði fljótt aftur ákjósanlegur staður fyrir ferðamenn sem vilja lágmarka smithættu í náinni framtíð.
Þetta er meðal þess sem bankastjórar Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka nefna í greinum sem þeir skrifuðu í jólablaði Vísbendingar, sem hægt er að lesa í heild sinni með því að smella hér.
Birna er bjartsýn
Samkvæmt Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, hefur framgangur yfirstandandi kreppu verið í stórum dráttum í samræmi við þá mynd sem ýmsir drógu upp í vor og telur hún ljóst að veturinn verði harður í efnahagslegu tilliti.
Hins vegar er hún bjartsýn til lengri tíma og segir að flestar forsendur séu til staðar fyrir myndarlegri viðspyrnu á seinni hluta næsta árs. „Starfskraftar, fasteignir, farartæki og aðrir innviðir ferðaþjónustunnar eru vel í stakk búnir til að taka við myndarlegri fjölgun ferðamanna,“ segir Birna í greininni.
Einnig bætir hún við að efnahagsreikningar heimila, fyrirtækja og hins opinbera séu enn sterkir á heildina litið, sem er önnur þróun en í síðustu kreppu. Birna er líka bjartsýn á að Ísland verði vænlegur kostur fyrir ferðamenn þar sem ímynd landsins með sína hreinu náttúru og víðerni ætti að lokka þá sem vilja fá tilbreytingu eftir heilt ár af innilokun en vilja á sama tíma fara að gát hvað varðar smithættu.
Lilja Björk bendir á fólkið á bak við fyrirtækin
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, er einnig bjartsýn fyrir næsta ár, en í grein sinni fer hún yfir þær aðgerðir sem bankinn hefur ráðist í til að fólk og fyrirtæki geti betur brugðist við yfirstandandi niðursveiflu. Hún bætir við að fyrirtæki séu einhvers konar ópersónulegar stofnanir, að baki þeim sé jafnan fólk sem sé til búið að leggja á sig miklar fórnir. Því til stuðnings segir Lilja Björk að 95 prósent fyrirtækja sem eru í viðskiptum við Landsbankann teljast vera lítil eða pínulítil.
„Það er mikilvægt að hlusta vel á fólkið sem rekur og á þessi fyrirtæki, stór sem smá. Þetta fólk er ómissandi við að halda efnahagslífinu gangandi. Það ræður aðra í vinnu, greiðir laun, skatta og gjöld og býr til verðmæti úr þeirri þekkingu og reynslu sem það hefur aflað sér,“ segir Lilja í greininni sinni.
Benedikt vill kröftuga viðspyrnu
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, minnist hins vegar á mikilvægi aðgerða hins opinbera í efnahagsviðspyrnunni á næstu mánuðum. Að hans mati skiptir mestu máli að haldið verði áfram á þeirri braut sem íslensk stjórnvöld eru á núna, með áframhaldandi stuðningi til þeirra sem orðið hafa fyrir mestum efnahagslegum áhrifum veirunnar.
„Afar mikilvægt er að stjórnvöld dragi ekki að sér hendur of snemma og að allir leggi sitt af mörkum: íslenska ríkið, Seðlabankinn, fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar,“ segir hann og varar við áframhaldandi samdrátt og atvinnuleysi verði efnahagsbatinn of hægur.
Að mati Benedikts felur kröftug viðspyrna efnahagslífsins meðal annars í sér öfluga hvata til að örva fjárfestingu innan einkageirans og hvata sem stuðla að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra fyrirtækja sem hafa farið hvað verst út úr niðursveiflunni. Einnig vill hann að stutt verði við fyrirtæki sem líklegust eru til að vera hluti af uppbyggingunni, ekki síst þeim sem eru lítil og meðalstór.
Hægt er að gerast áskrifandi að vísbendingu með því að smella hér.