„Nei, ég myndi ekki segja að til átaka hafi komið,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í ítarlegu viðtali við Kjarnann spurður hvort að einhver átök hafi verið um tillögur hans um sóttvarnaaðgerðir hingað til. Hann sagðist hafa átt „alveg einstaklega gott samband“ við heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra og reyndar einnig aðra ráðherra. „Ég verð að hrósa Svandísi [Svavarsdóttur] sérstaklega fyrir einstaklega gott samstarf.“
Hann sagði að hins vegar hefði verið ákveðinn þrýstingur fyrir hendi en hann hafi litið á það sem eðlileg skoðanaskipti.
„Það er ekkert óeðlilegt við það að menn séu að verja sína hagsmuni. Það eru aðrir aðilar í samfélaginu en stjórnvöld sem hafa beitt miklu meiri þrýstingi. Þá er ég að tala um ákveðna starfsemi og fyrirtæki. Það er eitthvað sem við sáum ekki fyrir í viðbragðsáætlanagerðinni. Þessi órói í samfélaginu. Ég hélt að það væri nóg að segja: „Nú lokum við þarna, við verðum að gera það.“ Að allir myndu fara eftir því. En það er ekki þannig. Það vilja allir fá sína eigin forskrift. Allir hópar vilja sínar leiðbeiningar.“
Þórólfur sagði í viðtalinu að hann teldi almenning enga grein gera sér fyrir þeirri vinnu sem farið hefur í slík mál, til dæmis hjá starfsfólki almannavarna og hjá sóttvarnalækni og landlækni. „Það hefur þurft að leggja dag við nótt allt árið við að útbúa leiðbeiningar fyrir alls konar fyrirtæki og starfsemi einstaklinga og svara fyrirspurnum. Þetta hefur þurft að gera í hvert skipti sem er hert og í hvert skipti sem slakað hefur verið á.“
Þið hljótið nú að hafa ranghvolft einhvern tímann augunum yfir fyrirspurnum og óskum um undanþágur ...
„Sumar þeirra hafa kannski hljómað nokkuð undarlega í okkar eyrum en auðvitað er fólk að spyrja í einlægni,“ svaraði sóttvarnalæknir. „Það vill vanda sig, er óöruggt og þá sendir það póst. Frá upphafi opnuðum við á þessi samskipti og reyndum að svara öllum. Þessar fyrirspurnir voru upp undir þúsund suma dagana.
En við töldum nauðsynlegt að fara þessa leið, að fólk gæti spurt okkur spurninga. Til að skapa ró og samvinnu í samfélaginu frekar en að láta marga verða pirraða.“
Þórólfur sagði að eitt af því sem hefði verið fróðlegt að fylgjast með í faraldrinum væri mannlegt eðli og hegðun. „Bæði hvað fólk er fljótt til samvinnu og eins hvað margir eru fljótir til andstöðu. Þetta hefur komið mér svolítið á óvart.“