Már Guðmundsson fyrrverandi Seðlabankastjóri segir fjölmiðla hafa tilhneigingu til að færa Samherjamálin svokölluðu í búning persónulegs hasars, þótt það sé ekki raunin. Hann útilokar ekki að hann muni tjá sig um gjaldeyrisrannsóknir Seðlabankans þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir í þessum málum.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Má í jólablaði Vísbendingar, sem hægt er að lesa hér. Þar segist hann lítið geta tjáð sig um dómsmálin sem snúa að eftirliti Seðlabankans með gjaldeyrisbrotamálum í hans tíð sem seðlabankastjóri, þar sem það liggi ekki enn fyrir hvort þeim sé lokið eða ekki.
„Það er auðvitað ákveðin tilhneiging hjá fjölmiðlum að færa mál sem þessi í búning einhvers persónulegs hasars en þannig er það ekki í raun,“ bætir Már við. „Ég er ekki málsaðili í þessum málum og því ekki viðeigandi að ég sé að tjá mig um þau eins og svo væri. Síðar meir kemur til greina að ég tjái mig á ný með almennum hætti um rannsóknir Seðlabankans á gjaldeyrisbrotamálum meðan ég var í embætti en eðlilegt er að fyrst liggi ljóst fyrir hvort endanleg niðurstaða sé komin í þessi tvö tilteknu mál.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.