Nálægt 92 prósent landsmanna segja líklegt að þeir þiggi bólusetningu gegn COVID-19, um fimm prósent telja það ólíklegt og um þrjú prósent hafa ekki myndað sér skoðun á málinu. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Athygli vekur að Íslendingum sem segja það öruggt að þeir muni þiggja bólusetningu hefur fjölgað mikið frá því í haust. Í september sögðust 49 prósent landsmanna hafa þá skoðun en nú er það hlutfall orðið 65 prósent.
Fólk yfir fertugu er líklegra til að þiggja bólusetningu en yngri hluti landsmanna. Mest er andstaðan við bólusetningu hjá fólki á fertugsaldri, en í þeim aldurshópi segjast tíu prósent ólíklegt að það láti bólusetja sig.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hún vænti þess að stór hluti landsmanna yrði bólusettur gegn COVID-19 á fyrri hluta 2021.
Ísland er í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg um samninga og kaup á bóluefni. Þegar er búið að tryggja meira bóluefni en þarf til að bólusetja alla þjóðina en ekki liggur fyrir að öllu leyti hvenær stór hluti þess verður afhentur.
Fyrstu Íslendingarnir voru bólusettir 29. desember síðastliðinn í kjölfar þess að fyrstu skammtar af bóluefni Pfizer bárust hingað til lands. Ísland hefur þegar tryggt sér 250 þúsund skammta frá fyrirtækinu sem dugar fyrir 125 þúsund einstaklinga. Að lágmarki 50 þúsund skammtar munu berast frá Pfizer fram í mars.
Samningur Íslands við bóluefnaframleiðandann Moderna var undirritaður 30. desember 2020. Mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) er forsenda markaðsleyfis og áætlað er EMA haldi matsfund vegna Moderna 6. janúar 2021 en til vara 12. janúar 2021. Ísland fær um 128 þúsund skammta sem duga fyrir um 64 þúsund einstaklinga og áætlað er að afhending hefjist á fyrsta ársfjórðungi.
Ísland fær líka um 230 þúsund skammta sem duga fyrir um 115 þúsund einstaklinga af bóluefni frá Aztra Zeneca og fyrirtækið stefnir að því að byrja að afhenda skammta í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi.
Þá hefur Ísland tryggt sér bóluefni fyrir 235 þúsund einstaklinga frá Janssen og áætlað er að byrja afhendingu á þriðja ársfjórðungi.