Íslendingar neyta mun meira af tauga- og geðlyfjum en Danir, Norðmenn og Svíar. Í flokki ópíóíða er neyslan hérlendis meira en tvöfalt meiri en í Skandinavíu, en Íslendingar neyta einnig meira af róandi lyfjum, svefnlyfjum, þunglyndislyfjum, örvandi lyfjum og flogaveikislyfjum. Hlutfall notenda hefur þó minnkað nokkuð á síðustu árunum sem neyslan hefur verið mæld.
Þetta kemur fram í pistli frá Ölmu Möller landlækni sem birtist í Læknablaðinu í gær. Samkvæmt pistlinum er notkun lyfja í flestum lyfjaflokkum áþekk á meðal Norðurlandaþjóðanna ef frá er talin notkun tauga- og geðlyfja, sem lengi hefur verið hæst á Íslandi.
Að sögn landlæknis skýrist munurinn að einhverju leyti af því að fleiri einstaklingar fái ávísað tauga- og geðlyfjum hérlendis, en 36 prósent Íslendinga fengu ávísað slík lyf árið 2019, á meðan samsvarandi hlutfall var á milli 27 og 29 prósenta á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar hefur hlutfallið hér á landi minnkað nokkuð frá árinu 2017, þegar um 38 prósent neyttu slíkra lyfja.
Líkt og sést á myndinni hér að ofan, sem fengin er af gögnum úr Læknablaðinu, sést að Ísland hefur þó enn fleiri lyfjanotendur í öllum flokkum tauga- og geðlyfja, ef tekið er tillit til mannfjölda hvers lands.