Nú er hægt að nálgast ársreikninga íslenskra fyrirtækja án endurgjalds, eftir að ný lög þess, sem voru samþykkt í fyrra, tóku gildi í byrjun árs.
Hægt er að nálgast alla ársreikninga í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra með því að smella á körfu við hliðina á ársreikningi valins félags líkt og sést á mynd hér að neðan.
Þegar ársreikningur er valinn þarf svo að smella á gráan kassa sem myndast efst á síðunni og stendur „Karfa“ á, eins og stendur á myndinni hér til hliðar.
Frumvarpið til laganna var flutt af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, en Björn Leví Gíslason þingmaður Pírata hefur endurtekið flutt sambærileg frumvörp á síðustu þremur árum þar sem afnám gjalddtöku á upplýsingum úr ársreikningum var lagt til.
Dó í nefnd og mótmælt af Creditinfo
Björn Leví flutti frumvarp um afnám gjaldtöku fyrir aðgang að ársreikningum í september árið 2017 og svo aftur í desember sama ár. Það frumvarp fór í fyrstu umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd sem kallaði eftir umsögnum um málið, en rataði svo aldrei þaðan.
Creditinfo, sem er stærsta fyrirtækið á þeim markaði sem selur upplýsingar úr ársreikningaskrá, mótmælti því frumvarpi í umsögn sinni til nefndarinnar snemma árs 2017. Þar sagði fyrirtækið meðal annars að upplýsingarnar væru fyrst og fremst nýttar af atvinnulífinu og taldi það eðlilegt að fólk og fyrirtæki greiði fyrir þær í stað þess að „almannafé verði nýtt til að standa straum af kostnaði við rekstrur skránna.“
Ríkisskattsstjóri líka á móti
Embætti ríkisskattstjóra skrifaði einnig umsögn um frumvarpið og sagði það kippa fótum undan rekstri þess. Enn fremur líkti embættið afnámi gjaldtökunnar við það að gera aðgang að söfnum landsins ókeypis.
Ríkisskattstjóri sagði að ef fyrirhugaðar lagabreytingar fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“
Þórdís Kolbrún með nýtt frumvarp
Björn Leví endurflutti sama frumvarpið þrisvar sinnum á árunum 2017-2019, en það komst aldrei úr nefnd. Í apríl í fyrra, rúmu hálfu ári eftir þriðja endurflutning Björns Levís kom Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, svo fram með eigið frumvarp sem sneri að ársreikningum og endurskoðun á þeim, en í því var lagt til að aðgengi að ársreikningum yrði gjaldfrjálst. Frumvarpið var samþykkt í fyrrasumar, en lögin tóku gildi við upphaf þessa árs.
Aðgengilegt í nágrannalöndum
Líkt og Kjarninn benti fyrst á fyrir þremur árum síðan eru upplýsingar um fyrirtæki aðgengilegar almenningi í nágrannalöndum Íslands. Þar eru starfsræktar sérstakar vefsíður þar sem hægt er að nálgast grunnupplýsingar um fyrirtæki á borð við eigendur, stjórnendur og lykiltölur úr rekstri fyrirtækjanna.
Vefsíðan Allabolag í Svíþjóð þjónar til að mynda þessum tilgangi, en þar er að finna helstu upplýsingar um fyrirtæki þar í landi. Hægt er að nálgast grunnupplýsingar án kosnaðar en ef þörf er á þá er hægt að greiða fyrir frekari upplýsingar. Samkvæmt síðunni er hún uppfærð daglega með upplýsingum frá yfirvöldum þar í landi.
Sambærilegar síður eru í Danmörku og Noregi, þar sem hægt er að fletta upp grunnupplýsingum um dönsk og norsk fyrirtæki.