Samfélagsmiðlarisinn Twitter hefur fest kaup á íslenska tækni- og hönnunarfyrirtækinu Ueno, sem Haraldur Þorleifsson stofnaði utan um verkefnavinnu sína árið 2014. Dantley Davis, hönnunarstjóri Twitter, greindi frá þessu í tilkynningu á miðlinum í dag.
Samkvæmt tilkynningu Davis munu Haraldur og aðrir starfsmenn Ueno nú ganga til liðs við hönnunar- og rannsóknadeild Twitter, eftir að hafa áður sinnt verkefnum fyrir samskiptamiðilinn sem verktakar.
Excited to share that today we’re welcoming the @uenodotco team to Twitter! 👋🏾
— Dantley Davis (@dantley) January 6, 2021
Davis segir í tilkynningu sinni á miðlinum að Twitter hafi fengið að sjá frá fyrstu hendi hversu framsæknir starfsmenn Ueno hafi verið í vinnu sinni fyrir Twitter og að Twitter hlakki til að fá þau í hópinn.
Kaupverðið í þessum viðskiptum hefur ekki verið gefið upp, en Ueno velti yfir tveimur milljörðum króna árið 2019.
Í frétt tæknimiðilsins TechCrunch er haft eftir talsmanni Twitter að Ueno muni ljúka verkefnum sínum fyrir aðra viðskiptavini á næstu vikum.
Síðan muni Twitter hitta alla núverandi starfsmenn Ueno til þess að kynnast þeim og sjá hvar og hvort þeir muni passa inn í starfsemi Twitter.
Ueno hefur verið með starfsemi í San Fransiskó, New York og Los Angeles, auk skrifstofu í Reykjavík, og hefur stækkað hratt á síðustu árum.
Fyrirtækið hefur sinnt verkefnum fyrir fjölmörg stórfyrirtæki, til dæmis Google, Apple og Facebook, auk AirBnB, Slack, Uber og fjölda annarra.
Haraldur gefur í skyn, í léttum tóni á Twitter-síðu sinni, að nú þurfi hann og Jack Dorsey forstjóri Twitter að fara að skoða hvort ekki sé hægt að gera eitthvað varðandi það að kynna til leiks edit-takka, sem notendur samfélagsmiðilsins hafa ítrekað óskað eftir á undanförnum árum.
Now, about that edit button @jack
— Halli (@iamharaldur) January 6, 2021