Mótmælendur eru komnir inn í húsið. Þannig hljómuðu skilaboð sem þingmenn í fengu í þinghúsinu í Washington í dag. „Haldið ykkur frá gluggum og dyrum,“ tilkynnti lögreglan skömmu síðar eftir að hún hafði rammlæst húsinu og hleypti fólki hvorki inn né út.
Í dag var engin venjuleg samkoma í þinghúsinu. Þar voru þingmenn beggja deilda saman komnir til að staðfesta úrslit forsetakosninganna og þar með sigur Joe Bidens. Borgarstjórinn hefur sett á útgöngubann í Washington. Ríkisstjórinn hefur óskað eftir því að þjóðvarðliðið verið kallað til svo skakka megi leikinn.
Þúsundir stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta eru saman komnir í Washington. Þeir halda því fram að kosningunum hafi verið „stolið“ af Trump. Margir þeirra telja að í dag hafi lokaorrustan hafist þar sem á fundi beggja þingdeilda átti að staðfesta kjör Joe Bidens.
Trump tapaði í kosningunum sem fram fóru í nóvember en heldur því enn fram að svik og prettir hafi verið í tafli. Ekkert bendir til þess að svo sé. Hann hefur hvatt stuðningsmenn sína til að mæta á fjöldafundi hans í höfuðborginni. Á slíkum fundi sem haldinn var í dag var honum fagnað gríðarlega af viðstöddum og hélt hann því enn fram að hann væri sigurvegari kosninganna.
Fjöldi mótmælenda var saman kominn við þinghúsið í Washington í dag og áttu lögreglumenn fullt í fangi með að halda aftur af mannfjöldanum. Innandyra fóru fram umræður um staðfestingu á úrslitum kosninganna. Hópi mótmælenda tókst að komast inn í þinghúsið.
Muriel Bowser, borgarstjóri Washington, ákvað að setja á útgöngubann í borginni eftir að ástandið við þinghúsið hafði versnað. Hann sagði að enginn ætti að vera á ferli utandyra. Útgöngubannið gildir í tólf tíma.
Trump, sem hafði ítrekað hvatt stuðningsmenn sína til að mótmæla í höfuðborginni og krefjast þess að þingið snúi úrslitum kosninganna sér í vil, skrifaði í tísti nú í kvöld, eftir að uppþotið varð við þinghúsið: „Verið friðsamleg“.
Lögreglan hefur einnig tilkynningu um að rörasprengjum hefði verið komið fyrir víðs vegar um borgina, m.a. utan við þinghúsið og voru nokkrar byggingar þess rýmdar í varúðarskyni. Til átaka hefur komið milli lögreglu og mótmælenda.